Á fimmtudag var áður óséð myndefni úr Wonka sýnt á CinemaCon-ráðstefnunni í Las Vegas þar sem kom í ljós að Grant léki Úmpa-Lúmpa í myndinni. Enn hefur ekkert myndefni úr myndinni þó komið fyrir augu almennings.
Wonka er söngleikur og fjallar um kynni Wonka af einum Úmpa-Lúmpanum sem hann finnur fastan í glerkrukku og ræður til sín í vinnu. Paul King, sem leikstýrði Paddington-myndunum, leikstýrir Wonka sem kemur út 15. desember. Auk Chalamet og Grant fara Rowan Atkinson, Olivia Colman og Matt Lucas með hlutverk í myndinni.

Appelsínugulir menn með grænt hár
Samkvæmt heimildum erlendra miðla verða Úmpa-Lúmparnir líkir þeim sem komu fyrir í myndinni Willy Wonka og súkkulaðiverksmiðjan frá 1971. Þar voru þeir appelsínugulir á lit með grænt hár og hvítar augabrúnir í hvítum smekkbuxum.

Þeir verða því ólíkir Úmpa-Lúmpunum sem indverski leikarinn Deep Roy lék í Kalla og sælgætisgerðinni í leikstjórn Tim Burton frá 2005. Ólíkt fyrri myndinni þar sem fjöldi leikara léku Úmpa-Lúmpana, lék Roy þá alla með tölu.
Í myndskeiðinu virðist andliti Hugh Grant hafa verið bætt stafrænt á búk Úmpa-Lúmpans þar sem hann er ekki nema hálfur metri á hæð. Þá er ekki enn ljóst hvort Grant mun bara leika einn Úmpa-Lúmpa eða fleiri.
Hér fyrir neðan má heyra Úmpa-Lúmpana syngja Úmpa-Lúmpa-lagið í myndinni frá 1971: