„Taugarnar eru bara mjög góðar. Ég er mjög spennt fyrir þessu og býst við hörkuleik. Þær í Keflavík horfa líklega á þetta sem duga eða drepast leik og við ætlum að gera það sama. Við mætum dýrvitlausar í kvöld,“ segir Dagbjört í samtali við Vísi.
„Við erum mjög gíraðar eftir síðustu tvo leiki en reynum að halda jafnvæginu í góðu lagi og fara ekki of hátt. Við vitum hvað er í boði í kvöld en hugsum ekki út í það fyrr en leikurinn klárast, ætlum að halda einbeitingu.“
Hitti úr öllum skotunum í síðasta leik
Valur vann síðasta leik 77-70 að Hlíðarenda gegn deildarmeisturunum og höfðu áður unnið 69-66 sigur í fyrri leik liðanna á heimavelli Keflavíkur. Dagbjört steig upp hjá Valskonum í síðari leiknum þar sem hún var stigahæst með 19 stig en það sem vakti mesta athygli var 100 prósent skotnýting hennar.
Öll þrjú tveggja stiga skot hennar fóru niður, öll fjögur þriggja stiga skotin og eina vítið sem hún tók. Aðspurð hvort hún ætli ekki að endurtaka leikinn í kvöld segir Dagbjört:
„Það eru einmitt margir búnir að spyrja mig hvað ég gerði fyrir þann leik sem ég geri ekki fyrir aðra, en það koma bara stundum svona leikir og það gerðist í síðasta leik. Við erum með það breiðan hóp að það er ekkert nauðsynlegt að maður eigi svona leik í hverjum einasta. Við sjáum hvað gerist og það kæmi ekki á óvart að aðrar myndu stíga upp í kvöld.“
Hún segir Valskonur þá stefna á sigur í kvöld, að klára einvígið og titilinn.
„Það er lítið annað í boði. Við horfum á þetta eins og þetta sé bikarleikur, það er að duga eða drepast. Við mætum brjálaðar í kvöld og auðvelt að gíra sig fyrir svona leiki þegar Íslandsmeistaratitill í boði,“ segir Dagbjört.
Leikur Keflavíkur og Vals hefst klukkan 19:15 en Hörður Unnsteinsson og sérfræðingarnir í Körfuboltakvöldi hefja upphitun klukkan 18:45 á Stöð 2 Sport.