Félagsskiptaglugginn í ár er með breyttu sniði frá undanförnum árum eftir að breytingar voru samþykktar 1. nóvember síðastliðinn. Nú verður glugginn opinn frá 2. febrúar til 26. apríl og frá 18. júlí til 15. ágúst. Í fyrra var glugginn opinn frá 17. febrúar til 11. maí og frá 29. júní til 26. júlí.
Víkingur

Víkingar hafa byrjað mótið vel, eru með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og eru með gríðarlega sterkan hóp. Í kjölfar krossbandaslita Kyle McLagan fékk liðið hinn færeyska Gunnar Vatnhamar sem getur leikið á miðjunni og í stöðu miðvarðar. Í samtali við Vísi segist Kári Árnason ekki búast við leikmanni fyrir lok félagsskiptagluggans en að þeir væru alltaf opnir fyrir því að fá unga og efnilega leikmenn til framtíðar.
Valur
Valsmenn eru sáttir með leikmannahóp sinn en hafa þó verið óheppnir með meiðsli í upphafi móts. Elfar Freyr Helgason og Hólmar Örn Eyjólfsson mynduðu miðvarðarpar Vals á undirbúningstímabilinu en hafa ekki spilað saman í upphafi Bestu deildarinnar. Orri Sigurður Ómarsson er ennþá að jafna sig á krossbandaslitum sem hann varð fyrir rétt fyrir síðasta tímabil. Hlíðarendapiltar eru með 6 stig að þremur leikjum loknum.
KA
Sævar Pétursson segir að leikmannahópur KA sé vel mannaður og að þeir muni skoða leikmannamál frekar í sumarglugganum sem opnar 18. júlí. KA hefur byrjað á tveimur jafnteflum og einum sigri í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.
KR

KR-ingar eru ánægðir með hópinn sinn og sagðist Bjarni Guðjónsson ekki búast við öðrum leikmönnum til félagsins að svo stöddu. Vesturbæingar voru einstaklega óheppnir með meiðsli lykilmanna í fyrra en núna er einungis Grétar Snær Gunnarsson smávægilega meiddur en hann ætti að verða tilbúinn eftir um tvær vikur. Mótið hefur farið vel af stað fyrir KR-inga sem eru með sex stig eftir þrjá leiki.
HK
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, segir að félagið sé í leit að liðsstyrk. Hins vegar sé það undir öðrum félögum komið hvort þeir nái að styrkja sig fyrir lok félagsskiptagluggans.

FH
Davíð Þór Viðarsson segist ánægður með leikmannahóp FH og að ekki megi búast við breytingum fyrir lok gluggans. Þrátt fyrir það séu leikmenn sem gætu verið ósáttir með að vera utan hóps í upphafi tímabils og gætu farið á láni.

Keflavík
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflvíkinga, er ánægður með leikmannahóp sinn og býst frekar við því að einn til tveir leikmenn gætu farið frá félaginu á láni. Annar þeirra er sóknarmaðurinn, Helgi Þór Jónsson, sem hefur verið utan hóps í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.
Breiðablik

Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki, staðfesti að engir leikmenn kæmu til félagsins en sagði að leikmenn gætu farið á láni frá félaginu. Hingað til hafa leikmenn verið utan hóps hjá Breiðablik sem kæmust í flest byrjunarlið annarra liða í Bestu deildinni. Markmið félagsins eru hins vegar stór í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Evrópukeppnum svo álagið gæti orðið mikið.
ÍBV
ÍBV náði í sinn fyrsta sigur gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í fyrradag. Í samtali við Fotbolta.net sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, að tveir leikmenn frá Jamaíka væru á leið til félagsins. Richard King er 21 árs gamall varnarmaður sem spilað hefur sjö landsleiki og Dwayne Atkinson er tvítugur framherji sem hefur spilað einn landsleik. Jafnframt viðurkenndi hann að hópurinn sem hóf mótið hafi verið of lítill. Liðið var til að mynda ekki með fullskipaðan bekk á móti KA í annarri umferð.
Fram
Framarar hafa byrjað mótið á tveimur jafnteflum og tapi í fyrstu þremur leikjunum. Í fyrra gerðu þeir tíu jafntefli og vilja líklegast snúa einhverjum þeirra yfir í sigur. Til þess þurfa þeir meiri stöðugleika í vörnina ef marka má síðasta tímabil en þeir fengu á sig næstflest mörk á sig í deildinni. Einungis Skagamenn fengu á sig fleiri mörk en þeir féllu.
Fylkir
Þjálfari Fylkis, Rúnar Páll Sigmundsson, hefur áður sagst vera ánægður með leikmannahóp sinn og ekki er að búast við nýjum leikmönnum í Árbænum. Árbæingar töpuðu fyrstu tveimur leikjunum en unnu þann þriðja á móti FH. Sigurinn á móti FH styrkir líklega enn betur hugmyndir Rúnars um að þeir þurfi ekki fleiri leikmenn.

Stjarnan
Stjarnan hafði ekki skorað þangað til kom að leiknum gegn HK í gærkvöldi þar sem liðið skoraði 5 mörk. Stjarnan er án síns helsta framherjan, Emils Atlasonar, um þessar mundir en hann er frá vegna meiðsla. Það skiptir ekki öllu máli ef aðrir leikmenn stíga upp líkt og í gær.