Viðskipti innlent

Stýri­vextir lækki ekki fyrr en um mitt næsta ár

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hagfræðideild Landsbankans telur að hagvöxtur verði rúmlega þrjú prósent á árinu.
Hagfræðideild Landsbankans telur að hagvöxtur verði rúmlega þrjú prósent á árinu. Vísir/Sigurjón

Hagfræðideild Landsbankans spáir 3,2 prósenta hagvexti á Íslandi í ár. Gert er ráð fyrir því að vextir haldi áfram að hækka og mun það eiga stóran þátt í því að það hægir á hagkerfinu. Spáir bankinn því að stýrivextir fari ekki að lækka fyrr en um mitt næsta ár.

Að mati bankans eru horfur góðar, ferðaþjónustan er farin að vaxa nokkuð eftir faraldur og mun það drífa hagvöxtinn áfram. Þó á örlítið minni hraða en áður. Búið var að spá 2,1 prósent hagvexti en þeirri spá hefur verið breytt í 3,2 prósent. Eru þetta góðar horfur í alþjóðlegu samhengi. Til samanburðar spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 1,3 prósent hagvexti í þróuðum ríkjum í ár, þar af 0,8 prósent hagvexti á evrusvæðinu, 1,6 prósent í Bandaríkjunum og 0,3 prósent samdrætti í Bretlandi.

Stýrivextir eru sem stendur í 7,5 prósentum og gerir Landsbankinn ráð fyrir því að þeir verði hækkaðir áfram til að koma verðbólgunni niður, sem í mars mældist 9,8 prósent. Býst bankinn við því að stýrivextirnir verði hækkaður um eitt prósentustig í viðbót. Þá muni þeir ekki lækka fyrr en á öðrum ársfjórðungi næsta árs. 

Samkvæmt Hagspánni er búist er við 2,1 milljón ferðamanna í ár. Mun sá fjöldi aukast um 200 þúsund ár hvert ár næstu tvö ár. Útflutningur muni aukast um 8,4 prósent og mun krónan halda áfram að styrkjast. 

Gert er ráð fyrir mun hófstilltari vexti einkaneyslu á næstu árum eftir mikinn vöxt á síðustu tveimur árum, eða 2,4 prósent í ár og 2,7 prósent á því næsta. Kaupmáttur mun standa í stað milli ára en aukast lítillega á því næsta. 

Íbúðamarkaður hefur kólnað verulega og er gert ráð fyrir mjög litlum verðbreytingum út þetta ár, en að meðalíbúðaverði verði engu að síður 4,8 prósent hærra í ár en í fyrra.

Hér fyrir neðan má lesa Hagspánna í heild sinni.

Tengd skjöl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×