Evrópuráðið var stofnað upp úr rústum seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1949 með það að markmiði að styðja við mannréttindi, lýðræði og réttarríkið og til að koma í veg fyrir að Evrópa verði aftur ofurseld einræði. Aðildarríkin voru 47 fram að innrás Rússa í Úkraínu en fljótlega eftir innrásina voru Rússar reknir úr ráðinu. Enda brýtur innrásin og fjölmörg voðaverk Rússa gegn öllum helstu gildum stofnsáttmála Evrópuráðsins.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra eru í hlutverki gestgjafa dagana 16. til 17. maí þegar þjóðarleiðtogar aðildarríkjanna 46 eða fulltrúar þeirra koma saman til fundar í Hörpu í Reykjavík. Fundurinn út af fyrir sig er sögulegur.
„Já, þetta er mjög óvenjulegt. Þetta er í raun og veru bara fjórði leiðtogafundurinn í sögu Evrópuráðsins. Sem er auðvitað stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Þarna koma saman 46 ríki og nú er verið að kalla leiðtoga þessara ríkja saman vegna stöðunnar í Evrópu. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Það er tilefnið,“ segir Katrín.
Utanríkisráðherra segir Rússa vega að grundvallargildum Evrópuráðsins með innrásinni í Úkraínu sem valdið hafi miklu mannfalli og tjóni.
„Evrópuráðið er síðan til að mynda að taka skref í skráningu á tjóninu. Sem skiptir gríðarlegu máli fyrir fólk í Úkraínu. Þar sem hægt er að skrá niður eignaskemmdir, manntjón og meiðsli og annað vegna stríðsins og fá síðan bætur í kjölfarið. Sömuleiðis verður ályktun á fundinum um stöðu úkraínskra barna sem ég tel gríðarlega mikilvægt að sé líka hluti af fundinum,“ segir Þórdís Kolbrún.
Umtalsverðar lokanir í miðborginni
Þegar rúmlega fjörtíu þjóðarleiðtogar með öllu sínu fylgdarliði koma saman í Hörpu mun það ekki fara framhjá neinum sem á leið um miðborgina á meðan á fundinum stendur. Því víðtækar lokanir verða í kringum Hörpu á meðan.
Lokað verður fyrir alla bílaumferð um Sæbraut frá gatnamótum Snorrabrautar, út Lækjargötu og Sóleyjargötu að gatnamótum hennar við Njarðargötu. Auk þess verður allt svæðið og nálægar götur í kringum Alþingi lokaðar, allt frá Vonarstræti og út Geirsgötu að Ægisgötu.
Gunnar Hörður Garðarsson samskiptastjóri Ríkislögreglustjóra segir stórt svæði næst Hörpu einnig verða lokað gangandi vegfarendum. Öryggisgæsla verði mikil sem flestir starfsmenn íslensku lögreglunnar komi að auk aðstoðar frá Norðurlöndunum.
„Þar á meðal vopnaða lögreglumenn. En vopnað lögreglulið er alltaf í fylgd og undir stjórn íslenskrar lögreglu,“ segir Gunnar Hörður. Þetta væri lang stærsta verkefni sem íslenska lögreglan hefði tekið þátt í og mikið lagt upp úr að allt fari á besta veg. Íbúar borgarinnar sýndu vonandi skilning á lokunum og öðrum truflunum.
Lokanir taka gildi klukkan 23:00 mánudaginn 15. maí og gilda til klukkan 18 hinn 17. maí. Þá má búast við einhverjum röskunum á umferð á öllu höfuðborgarsvæðinu þegar gestir verða fluttir í forgangsakstri til og frá Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli að Hörpu og hótelum.
„Og þótt ekki verði lokanir getum við gert ráð fyrir að það verði töluverðar umferðarraskanir á þessum tíma sem þjóðarleiðtogarnir eru að koma og fara,“ segir Gunnar Hörður.
Undanfarna mánuði hafa starfsmenn utanríkisráðuneytisins og fleiri ráðuneyta verið uppteknir við að skipuleggja fundinn. Ragnar Þorvarðarson framkvæmdastjóri hjá utanríkisráðuneytinu vegna leiðtogafundarins segir að auk þjóðarleiðtoganna komi einnig tíu leiðtogar alþjóðastofnana eins og Evrópusambandsins.
„Þetta er mjög stórt skipulagslega séð. Við vinnum vel með ýmsum stofnunum. Ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Ísavia, ráðuneytum, Reykjavíkurborg. Listinn er óendanlegur en þetta er spennandi verkefni,“ segir Ragnar. Allir leggi metnað sinn í að fundurinn og umgjörð hans komi vel út fyrir Ísland.
Mikill fjöldi erlendra fjölmiðla
Ragnar segir að það hefði verið mun erfiðara að halda þennan fund ef ekki hefði verið fyrir Hörpu og vel þjálfað starfsfólk hennar. Skipuleggja þurfi fundarhaldið sjálft og koma öllum fyrir á fjölmörgum hótelum. Þá megi reikna með miklum fjölda fjölmiðlafólks. Skráning þeirra væri þegar hafin og gengi vel.
„Við áætlum að þetta verði kannski á milli þrjú til fimm hundruð fulltrúar fjölmiðla. En ef áhuginn er mikill getur sú tala hækkað auðveldlega. Að sama skapi tökum við á móti ellefu manna sendinefnd með hverjum leiðtoga,“ segir Ragnar. Hver sendinefnd fái sérskipaðan íslenskan tengilið.
Íslendingar tóku formlega við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember í fyrra. Forsætisráðherra segir væntanlega yfirlýsingu fundarins aðallega fjalla um málefni Úkraínu. Íslendinga hafi hins vegar einnig lagt mikla áherslu réttinn til heilnæms umhverfis sem mannréttindi.
„Við höfum lagt gríðarlega mikla áherslu á lýðræðið og ákveðnar grunnreglur lýðræðisins sem ríkin geti sameinast um. Síðan viljum við að minnsta kosti vísa veginn hvað varðar framþróun í tækni. Þar hefur Evrópuráðið unnið mjög góða vinnu þegar kemur að því að meta ýmis siðferðisleg álitamál. Þegar kemur að notkun gervigreindar á ýmsum viðkvæmum sviðum samfélagsins,“ segir Katrín. Það væri mikilvægt að Evrópa tæki forystu þegar kæmi að réttindum fólks í heimi nýrrar tækni.
Íslendingar bera kostnaðinn af leiðtogafundinum sem gestaríki
„Kostnaðurinn verður mikill og slagar hátt í tvo milljarða. Það er fyrst og fremst kostnaður við öryggisgæslu. Það er alveg ótrúlegt umfang sem fylgir henni þegar um er að ræða 46 þjóðarleiðtoga. Einhverjum kann að finnast þetta mikill kostnaður en þetta er líka eins og ég segi stærsti fundur sem Ísland hefur haldið á alþjóðavettvangi,“ segir Katrín.
Þórdís Kolbrún segir einhverjar líkur á að Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu mæti á leiðtogafundinn. Ef ekki muni hann að minnsta kosti taka þátt í honum með fjarfundabúnaði. Hins vegar væri líkur á að Dmytro Kuleba utanríkisráðherra komi. Fundurinn skipti bæði Úkraínu og öll aðildarríki Evrópuráðsins máli.
„Við höfum lagt mjög mikla áherslu á að þetta verði ekki skrautfundur. Við erum ekki að funda til að funda. Við erum ekki að koma saman til að það líti vel út fyrir okkur sjálf eða það fólk sem við störfum í umboði fyrir eða fyrir umheiminum,“ segir Þórdís.
Forsætis- og utanríkisráðherra segja innihald fundarins skipta megin máli á þeim óvissutímum sem nú ríki í Evrópu.
„Vegna þess að það skiptir raunverulegu máli hvað er sagt og hvað er gert og hvernig er síðan unnið úr því. Hvernig Evrópuráðið og aðildarríki þess koma fram sameinuð um að fyrir þetta stöndum við og við ætlum að gera það sem þarf til að standa vörð um það,“ segir Þórdís Kolbrún.