Samkvæmt upplýsingum frá alríkislögreglunni hafði verið gefin út handtökuskipun á hendur manninum. Hann var einn af þeim sem átti að handtaka í aðgerðinni stóru á miðvikudag, þegar Sverrir var handtekinn ásamt tugum annarra víðs vegar um Brasilíu.
Eftir að umræddur maður fannst ekki á miðvikudag var hann eftirlýstur af lögreglunni. Samkvæmt lögreglunni hafa nú allir 7 einstaklingarnir sem grunaðir eru um aðild að málinu í borginni Rio verið handteknir.
Annar maður, sem ekki hafði verið til rannsóknar í tengslum við glæpahringinn, var einnig handtekinn í verslunarmiðstöðinni. Var hann sagður „gripinn glóðvolgur“ við glæpsamlega starfsemi án þess að sagt sé hver hún sé.
Þeir sem handteknir hafa verið í aðgerðinni, sem alríkislögreglan kallar Match Point, eru grunaðir um víðtækt fíkniefnasmygl til og frá Brasilíu sem og peningaþvætti.