Fótbolti

Ís­lendinga­lið Rosen­borg byrjar tíma­bilið á sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rosenborg byrjar
Rosenborg byrjar Rosenborg

Rosenborg og Viking mættust í opnunarleik norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Alls tóku fjórir Íslendingar þátt í leiknum sem Rosenborg vann 1-0.

Kristall Máni Ingason og Ísak Snær Þorvaldsson byrjuðu saman sem fremstu menn í liði heimamanna á meðan Patrik Sigurður Gunnarsson stóð vaktina í marki Viking. Þá kom landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason af bekknum hjá gestunum.

Staðan í hálfleik var markalaus en bæði Kristall Máni og Ísak Snær nældu sér í gult spjald í fyrri hálfleik. Voru þeir báðir teknir af velli í þrefaldri skiptingu á 55. mínútu og tveimur mínútum síðar kom sigurmarkið. Adrian Pereira með markið eftir sendingu Ulrik Jenssen.

Þegar tuttugu mínútur lifðu leiks kom Birkir inn af bekknum en skömmu síðar fékk Shayne Pattynama sitt annað gula spjald í liði Viking og þar með rautt. Rosenborg hélt út og vann 1-0 sem segja má að hafi verið nokkuð ósanngjarn miðað við tölfræði leiksins.

Alls fara sex leikir til viðbótar fram í dag en einum leik hefur verið frestað vegna Covid-19. Alls eru tíu leikmenn Strömsgodset smitaðir sem og tveir starfsmenn liðsins. Ari Leifsson leikur með liðinu en ekki kemur fram hvort hann sé með veiruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×