Handbolti

„Alveg ótrúlega nálægt því að komast á stórmót“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Andrea Jacobsen
Andrea Jacobsen Skjáskot/Stöð 2

Íslenska kvennalandsliðið háir baráttu við það ungverska um að komast á lokamót HM í handbolta og hefst einvígið á heimaleik Íslands á Ásvöllum í dag.

Andrea Jacobsen er í lykilhlutverki í íslenska liðinu og mætir full sjálfstrausts í verkefnið.

„Það er rosa mikil spenna í hópnum alveg eins og síðast þegar við vorum í þessari stöðu á móti Serbum; alveg ótrúlega nálægt því að komast á stórmót. Núna erum við aftur í sama séns að mínu mati en ótrúlega sterkt lið sem við erum að mæta og við þurfum að hitta á góða leiki,“ segir Andrea.

Andrea vísar til þess þegar íslenska liðið var einum leik frá því að komast í lokakeppni EM í fyrra en tap gegn Serbum í síðasta leik undankeppninnar gerði út um vonir íslenska liðsins þá.

„Við lærðum klárlega á því. Það hefur verið stöðug uppbygging hjá okkur, mér finnst við vera búnar að bæta okkur með hverjum leiknum og það er komið ár frá leiknum gegn Serbum,“ segir Andrea.

Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 16:00 og hvetur Andrea íslensku þjóðina til að fjölmenna á Ásvelli.

„Það er frítt á leikinn og fólk hefur enga afsökun. Það er slæmt veður og það á enginn að fara úr bænum, bara koma á leikinn.“

Nánar er rætt við Andreu í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Andrea Jacobsen - Ísland Ungverjaland

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×