Körfubolti

Sara Rún stigahæst þegar Faneza vann sigur í umspili

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir leikur með Faenza.
Sara Rún Hinriksdóttir leikur með Faenza. Vísir/Hulda Margrét

Sara Rún Hinriksdóttir og stöllur hennar í Faneza unnu góðan sigur á Valdarno í umspili um sæti í efstu deild ítölsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik í kvöld.

Faenza lauk deildakeppninni í 10. sæti og lið Valdarno í 13. sæti og þurfa bæði lið að leika umspilsleiki um það hvaða lið heldur sæti sínu í efstu deild. Það lið sem fyrst vinnur tvo leiki sigrar í einvíginu en tapliðið mætir tapliði hins einvígisins í úrslitasæti um sæti í efstu deild.

Faenza byrjaði betur í dag og leiddi 31-22 að loknum fyrri hálfleiknum. Sara Rún var að leika vel fyrir Faenza en í plús/mínús tölfræði leiksins sést að lið Faenza var að leika best þær mínútur sem Sara Rún var inni á vellinum.

Hvort lið skoraði átta stig í þriðja leikhluta og Faenza því með átta stiga forskot að honum loknum. Í lokafjórðungnum bitu hins vegar gestirnir frá sér. Þær jöfnuðu metin í 47-47 og aftur 50-50 þegar tvær mínútur voru eftir.

Báðum liðum misfórst í næstu sóknum en þegar rúmar 50 sekúndur voru eftir skoraði Sara Rún og kom Faenza í tveggja stiga forystu. Faenza skoraði svo úr víti og komst í 53-50  og bætti við tveimur stigum af vítalínunni skömmu síðar.

Lokatölur 55-50 og Faenza því komið með forystu í einvígi liðanna. Sara Rún var stigahæst hjá Faenza í dag. Hún skoraði fimmtán stig á rúmum tuttugu og fjórum mínútum auk þess sem hún var lang hæst í plús/mínus tölfræði leiksins.

Liðin mætast á nýjan leik á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×