Atvikið átti sér stað í leik America og Leon í mexíkósku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudaginn. Leikmenn Leon vildu þá að jöfnunarmark America yrði skoðað á myndbandi og gengu hart fram gegn dómara leiksins, Fernando Hernandez.
Hann brást illa við og setti hnéð á sér í punginn á Lucas Romero, leikmanni Leon. Fyrir þetta fékk Hernandez tólf leikja bann.
„Ég vil biðja stuðningsmenn, almenning og Romero afsökunar á því hvernig ég brást við. Ég myndi aldrei ráðst á hann eða einhvern annan leikmann. Ég er meðvitaður um þetta og uni ákvörðun aganefndar,“ sagði Hernandez í yfirlýsingu.
Mikill hiti var í leiknum á sunnudaginn og þjálfarar beggja liða voru til að mynda reknir af velli eftir að þeim lenti saman á hliðarlínunni. Báðir fengu þeir tveggja leikja bann.