„Í kjölfar lagabreytinganna sem voru kynntar núna í lok síðasta árs og byrjun þessa ákváðum við að fara í það verkefni að gerast leigubílaþjónusta til að mæta inn á þennan nýja og samkeppnishæfa markað, bjóða leigubílstjórum upp á bætta hugbúnaðarupplifun og auka aðgengi notendanna að þjónustunni,“ segir Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp.
Með þessari nýjung telji hann að fleiri muni nýta sér leigubílaþjónustu. Leigubílaþjónusta Hopp verði meira í takt við það sem þekkist hjá fyrirtækjum erlendis, eins og Uber. Fólk geti þannig séð nálæga bíla í appinu, deilt leigubíl með fleirum og svo framvegis.
Þá verði hugbúnaðurinn sem notast verður við heilbrigður fyrir markaðinn.
„Með því að bjóða verð fyrirfram, með því að segja hvaða aðili er að keyra hvern og vita það á hverjum tíma. Með því að bjóða stjörnugjöf í lok ferðar bæði fyrir farþega og bílstjóra getur öllum liðið betur og öll tekið leigubíl oftar,“ segir Eyþór.
Leigubílstjórar hafa lýst yfir áhyggjum af tilkomu fyrirtækja eins og Uber en Eyþór segir þær áhyggjur ekki eiga við Hopp.
„Við erum bókstaflega ekki Uber. Það er strax hægt að slá það út af borðinu en það er auðvitað möguleiki að slíkt fyrirtæki komi inn á markaðinn. Heilbrigð samkeppni á markaðnum er eitthvað sem við fögnum klárlega.“
Í dag opnar fyrir leigubílstjóra að skrá sig hjá Hopp og þegar nógu margir hafa skráð sig verði opnað fyrir neytendur.
„Það verður örugglega aðeins seinna í vor.“
Notast verður við Hopp-appið, sem þegar er í notkun fyrir deilibíla og rafhlaupahjól. Þannig geta notendur séð þá bíla sem eru næstir.
„Fyrir farþega verður þetta ein og sama þjónustan. Markmiðið er að verða A-B farveitan þannig að þú opnar appið til að fara í þitt ferðalag sama hvernig það er. Við erum þannig að gera bíllausan lífstíl aðgengilegri fyrir hvern sem er. Bíllaus lífstíll þýðir fleiri ferðir fyrir leigubílstjóra.“