Í tilkynningu lögreglustjórans á Austurlandi eru íbúar þar hvattir til að sýna aðgæslu nærri vatnsfarvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður.
„Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til aðgæslu og að dvelja ekki í kjallaraherbergjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan rigningin gengur yfir,“ segir í tilkynningunni.
Vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við fréttastofu að staðan sé enn sem komið er óbreytt:
„Það er áframhaldandi þetta ástand, rigning, slydda eða snjókoma til fjalla. Það er bara verið að fylgjast rosalega vel með þessu.“
Samkvæmt veðurspá mun halda áfram að hlýna á svæðinu, einkum upp úr hádegi á morgun. Þá mun rigna í fjöll á öllu svæðinu og mun úrkoman verða mikil áfram fram á laugardag. Þá ætti þó að stytta upp eftir hádegi.