Kaupmannahafnarlögreglan greinir frá þessu í fréttatilkynningu. Lögregla var með gríðarlegan viðbúnað á staðnum eftir að tilkynnt var um árásina síðdegis 3. júlí síðastliðinn.
Í frétt DR segir að vegna þess sem fram kemur í fyrri dómsúrskurði sé maðurinn ekki nafngreindur.
Maðurinn var handtekinn fyrir utan verslunarmiðstöðina ellefu mínútur eftir að tilkynnt var um árásina. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi á réttargeðdeild síðan.
Hin látnu voru sautján ára piltur, sautján ára stúlka og 46 ára karlmaður.
Að sögn lögreglu hefur hinn ákærði viðurkennt að það hafi verið hann sem hafi skotið fólkið í verslunarmiðstöðinni. Hann neitar þó sök og vísar til þess að hann hafi ekki verið með réttu ráði þegar árásin var gerð.
Síðasta sumar var sagt frá því að maðurinn hafi reynt að ná sambandi við hjálparlínu skömmu fyrir árásina en ekki náði í gegn.
Rannsókn lögreglu hefur staðið í um hálft ár þar sem kom í ljós að maðurinn hafi skrifað að hann myndi svipta sig lífi með því að skjóta sig í höfuðið ef hann myndi láta verða af árás sem þessari.
Þá hafi komið í ljós að hann hafi keypt skotfæri og vesti dagana fyrir árásina og birt ljósmyndir af sjálfum sér haldandi á riffli á samfélagsmiðlum.
Um tvö hundruð manns hafa verið yfirheyrðir í tengslum við rannsókn málsins.