Sport

Sá besti í sögunni dáist að því sem Anníe Mist er að gera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir hefur farið á verðlaunpall á heimsleikunum í CrossFit með ellefu ára millibili.
Anníe Mist Þórisdóttir hefur farið á verðlaunpall á heimsleikunum í CrossFit með ellefu ára millibili. Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir á sér marga aðdáendur og einn þeirra hefur unnið fleiri heimsmeistaratitla en allir aðrir CrossFit karlar í sögu íþróttarinnar.

Mathew Fraser er næstasigursælasti CrossFit íþróttamaður sögunnar á eftir Tiu-Clair Toomey og sá karlmaður sem hefur unnið heimsmeistaratitilinn oftast eða fimm sinnum.

Þessi mikli sigurvegari bera mikla virðingu fyrir íslensku CrossFit goðsögninni sem komst fyrst á verðlaunapall árið 2010 og var það síðast árið 2021.

Anníe Mist skipti aftur til baka úr liðakeppninni yfir í einstaklingskeppnina og ætlar sér að keppa um heimsmeistaratitilinn í ár. Hún varð heimsmeistari árin 2011 og 2012 en hefur einnig verið tvisvar í öðru sæti og tvisvar í þriðja sæti.

Í samtali við Talking Elite Fitness miðilinn þá fór Fraser ekkert leynt með það hversu hátt hann skrifar það sem Anníe Mist er að gera núna fjórtán árum eftir að hún keppti á sínum fyrstu heimsleikum.

„Þegar ég horfi á Anníe vera að keppa í dag þá er það aðdáunarverðasta sem ég sé að hún er enn að komast á verðlaunapallinn öllum þessum árum síðar,“ sagði Mathew Fraser.

„Það er ekki hægt að bera saman keppnina í dag og hvernig hún var fyrir tíu árum. En Anníe hefur eins allir vita náð að aðlagast öllum þessum breytingunum og er enn samkeppnishæf við þær bestu svona mörgum árum síðar. Það er ótrúlegt að sjá það,“ sagði Fraser.

Fraser keppti sjálfur á árunum 2014 til 2020 og þegar hann hætti þá var hann búinn að vinna fimm heimsmeistaratitla í röð og flesta með yfirburðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×