Myndbandið, tekið af Christiaani Braga, má sjá hér að neðan.
Aríel Pétursson, sem sést hlaupa fyrir miðju á myndbandinu, býr í næsta húsi við Eskiás. Hann ætlaði að kanna hvort einhver væri slasaður, þar sem viðbragðsaðilar voru ekki mættir á vettvang. Slökkviliðið mætti fljótlega, og sneri Aríel þá við, en í sömu andrá sprakk kútur númer tvö eins og sést á myndbandinu.
„Í rauninni er bara mikil mildi að enginn hafi orðið fyrir fljúgandi kútum. Eftir fyrstu sprenginguna skokkaði ég þarna niður eftir því mér sýndist kútastæðan ekki vera þar sem eldtungurnar voru, þá fór ég aðeins nær til þess að sjá hvort einhver væri slasaður á svæðinu,“ segir Aríel í samtali við fréttastofu.
Eins og fyrr segir þeyttust gaskútarnir tugi metra. Annar hafnaði á bíl sem gjöreyðilagðist og sá síðari skaust líklega um hundrað metra.
Eins og sést á myndbandinu eru Aríel, og aðrir vegfarendur, í töluverðri fjarlægð frá byggingunni.
„Gaskúturinn lenti svona á að giska tveimur, þremur metrum frá mér þegar ég var að hlaupa í burtu og kíkti til baka til að stefna mín myndi ekki verða sú sama og kútsins. En fyrst að enginn slasaðist og skemmdir urðu ekki meiri en svo þá er þetta bara dagur eins og hver annar,“ segir Aríel að lokum.
