Innlent

Hollenskt herskip heimsækir Reykjavík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Herskipið HNLMS Rotterdam við bryggju í Sundahöfn í dag.
Herskipið HNLMS Rotterdam við bryggju í Sundahöfn í dag. Egill Aðalsteinsson

Stórt hollenskt herskip, með 280 hermenn um borð, er komið í kurteisisheimsókn til Reykjavíkur eftir æfingar í Norður-Atlantshafi. Skipið, sem kennt er við borgina Rotterdam, hélt frá Tromsø í Norður-Noregi fyrir fjórum dögum og lagðist að Skarfabakka í Sundahöfn í morgun.

Myndir af skipinu voru sýndar í fréttum Stöðvar 2 en það er 166 metra langt, 27 metra breitt og ristir sex metra. Það telst vera herflutningaskip og er búið til að flytja allt að 610 vopnaða hermenn til átakasvæða. Í því er jafnframt fullbúið hersjúkrahús með skurðstofum og gjörgæslurými.

Það er með stóru þyrluþilfari og skýli fyrir sex þyrlur. Rými er fyrir sex landgöngupramma um borð sem hægt er að sjósetja um skutinn. Einnig er pláss fyrir þrjátíu skriðdreka eða níutíu herjeppa.

Árið 2012 þjónaði það sem flaggskip NATO í átökum gegn sómölskum sjóræningjum undan austurströnd Afríku og varð þar fyrir skothríð, sem lauk með því að það sökkti einum báti ræningjanna.

Áætlað er að herskipið dvelji hér fram yfir helgi en brottför er fyrirhuguð á mánudagsmorgun.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Stærsta herskip sem sést hefur á Íslandi við bryggju í Reykjavík

Stærsta herskip sem komið hefur til Íslands og flaggskip breska sjóhersins, flugmóðurskipið Prince of Wales, verður í Reykjavík fram á föstudag. Koma skipsins tengist þó ekki varnaræfingunni Norður-Víkingi heldur er liður í reynslusiglingum skipsins um Norður-Atlantshaf.

NATO-kafbátur sigldi inn í Sundahöfn

Kafbátur á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO) var úti fyrir Faxaflóa nú í morgun og sigldi svo inn í Sundahöfn á tíunda tímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×