Kjarasamningur Rafiðnaðarsambandsins og VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna við HS Orku var undirritaður fyrir hádegi í dag og samningur við HS Veitur var undirritaður eftir hádegi.
Samningarnir fela í sér sambærilegar launahækkanir og finna má í þeim samningum sem gerðir voru á almenna markaðinum og munu félagsmenn greiða atkvæði um samningana eftir að þeir verða kynntir.
Í gær var þá greint frá því að félögin hafi náð samkomulagi við Orkuveitu Reykjavíkur en samninganefnd RSÍ og VM sagði í síðustu viku viðræðurnar hafa siglt í strand.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sagði þá í samtali við fréttastofu um helgina að engin lausn virtist í sjónmáli með Orkuveitunni og að viðræður við önnur orkufyrirtæki gengu hægt.
Úr því virðist hafa ræst eftir helgina en Kristján Þórður segir þau hafa fengið aukinn skilning á því að koma þyrfti kjarasamningsviðræðum áfram. Mikilvægt væri að gera nýja samninga til að taka við af þeim sem runnu út í nóvember.
„Það er bara mjög ánægjulegt að ná að skrifa undir kjarasamninga og reyna að komast áfram í þessu,“ segir Kristján.
„Nú er það þannig að við eigum eftir að klára fleiri kjarasamninga í orkugeiranum og síðan við ríki og sveitarfélög, mér telst til að það séu einhverjir sjö átta kjarasamningar eftir hjá Rafiðnaðarsambandinu eins og staðan er núna,“ segir hann enn fremur.
Félagsmenn eiga eftir að greiða atkvæði um samningana en hann bindur vonir við að þeir verði samþykktir.
Þá er hann vongóður um aðra samninga en þó einhverjar viðræður séu komnar skemmra á veg en aðrar séu þær alla vega komnar á skrið og bráðum verði hægt að hefja viðræður um langtímasamninga.
„Þá er það næsta verkefni þegar það er búið að klára þessa kjarasamninga sem að út af standa, það er að hefja viðræður um næstu samninga, sem verða vonandi lengri samningar,“ segir Kristján.