Moore og Willis giftust árið 1987 og skildu þrettán árum síðar. Þau eiga saman þrjár dætur, Scout, Tallulah og Rumer. Sú síðastnefnda eignaðist einmitt barn í lok síðasta árs og gerði þannig Moore og Willis að ömmu og afa.

Í myndbandinu sem Moore birti á Instagram-síðu sinni má sjá Bruce Willis fagna afmælinu sínu með fjölskyldunni. Ásamt Moore var Emma Heming Willis, núverandi eiginkona leikarans, börn þeirra og fleiri fjölskyldumeðlimir á svæðinu.
„Til hamingju með afmælið BW! Svo glöð að við gátum fagnað þér í dag. Ég elska þig og ég elska fjölskylduna okkar. Þakkir til allra fyrir ástina og heillaóskirnar - við finnum öll fyrir þeim,“ skrifar Moore við myndbandið sem sjá má hér fyrir neðan.
Í fyrra var greint frá því að leikaraferill Willis væri á enda þar sem hann hafði greinst með málstol. Í byrjun þessa árs kom svo tilkynning frá fjölskyldu leikarans um að hann hefði greinst með framheilabilun. Þau sögðu það vera mikinn létti að hann væri kominn með skýra greiningu.