Fótbolti

Atsu lagður til hinstu hvílu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Atsu var jarðsunginn í dag.
Christian Atsu var jarðsunginn í dag.

Útför fótboltamannsins Christian Atsu, sem lést í jarðskjálftanum mikla í Tyrklandi í síðasta mánuði, var í dag.

Útförin fór fram í Accra, höfuðborg Gana, að viðstöddu fjölmenni. Þar voru meðal annars forseti Gana, fulltrúar ganverska knattspyrnusambandsins og tyrkneska félagsins Hatayspor sem Atsu lék með þegar hann lést. Hann verður jarðaður í heimabæ sínum í suðaustur Gana síðar í dag.

Atsu fannst látinn í rústum heimilis síns í Tyrklandi 18. febrúar. Hans hafði verið saknað frá því jarðskjálftinn mikli reið yfir í Tyrklandi og Sýrlandi.

Daginn eftir jarðskjálftann mikla var greint frá því að Atsu hefði fundist á lífi. Mustafa Özat, talsmaður Hatayspor, dró síðan í land og sagðist hafa verið með rangar upplýsingar.

Atsu var 31 árs þegar hann lést. Hann kom til Hatayspor í sumar og skoraði sigurmark liðsins í leik gegn Kasimpasa í tyrknesku úrvalsdeildinni kvöldið áður en hann lést.

Chelsea keypti Atsu frá Porto 2013. Hann lék aldrei leik fyrir aðallið Chelsea en var lánaður víða, meðal annars til Newcastle sem keypti hann svo 2017. Atsu lék 86 leiki fyrir Newcastle og skoraði þrjú mörk. Hann yfirgaf Newcastle 2021 og gekk þá í raðir Al-Raed í Sádí-Arabíu. Atsu spilaði 65 landsleiki fyrir Gana og skoraði níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×