Innherji greindi frá skráningaráformum Bláa lónsins í nóvember en þá kom til greina að skrá félagið í vor. Úlfar segir að það sé mat stjórnar að skynsamlegra sé að skrá félagið í haust.
„Hugsunin var sú að hefja undirbúning þegar menn teldu aðstæður vera hagfelldar. Vegna markaðsaðstæðna teljum við skynsamlegra að horfa til skráningar í haust,“ segir Úlfar. Þá er einnig talið styrkja hlutafjárútboðið að afkoma félagsins yfir sumarmánuðina liggi fyrir.
„Í stað þess að selja væntingar þá erum við að fara að selja staðreyndir sem verða á borðinu á þeim tíma,“ segir hann.
Bláa lónið, sem var lokað frá október 2020 til júní 2021, tapaði sem 4,8 milljónum evra á árinu 2021. Í umfjöllun Innherja í nóvember kom fram að reksturinn hefði gengið vonum framar eftir að það fór að starfa á fullum afköstum þegar öllum sóttvarnarráðstöfum var aflétt. Að sögn viðmælenda gerðu áætlanir Bláa lónsins ráð fyrir metafkomu á þessi ári miðað við spár um þróun og samsetningu ferðamannafjöldans.
Gangi spár ISAVIA eftir koma 2,2 milljónir ferðamanna til Íslands á þessu ári en aðeins einu sinni áður hafa fleiri komið til landsins á einu ári. Það var metið árið 2018 en þá nam fjöldi ferðamanna 2,3 milljónum.
Síðustu stóru viðskipti með hluti í Bláa lóninu voru síðsumars árið 2021 þegar Stoðir og hópur lífeyrissjóða í gegnum samlagshlutafélagið Blávarma – í aðskildum viðskiptum með skömmu millibili – keyptu samanlagt rúmlega tólf prósenta hlut í félaginu sem verðmat það á liðlega 60 milljarða. Væntingar eru um að verðmiðinn á Bláa lóninu hafi hækkað nokkuð frá þeim tíma samhliða hraðri endurreisn ferðaþjónustunnar hér á landi eftir faraldurinn.
Í stað þess að selja væntingar þá erum við að fara að selja staðreyndir sem verða á borðinu á þeim tíma
Lífeyrissjóðirnir eignuðust fyrst 30 prósenta hlut í Bláa lóninu vorið 2019 þegar þeir keyptu eignarhlutinn af HS Orku en í þeim viðskiptum var ferðaþjónustufyrirtækið metið á 50 milljarða króna.
Stærsti hluthafi Bláa lónsins, með 39,6 prósenta hlut, er samlagshlutafélagið Hvatning en stærsti eigandi þess með 60 prósenta hlut er eignarhaldsfélagið Kólfur, sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins fer með forræði yfir, á meðan framtakssjóður í rekstri Landsbréfa heldur hins vegar á tæplega 40 prósenta hlut.
Í dag eru flugfélögin tvö – Icelandair og Play – einu ferðaþjónustufyrirtækin sem eru skráð á hlutabréfamarkað. Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins, hafði áður gefið út að félagið stefndi að skráningu í Kauphöllina fyrir árslok 2022 en áformin voru sett á ís.