Veður

Hæg­lætis­veður en sums staðar él fyrir norðan og allra syðst

Atli Ísleifsson skrifar
Frost verður á bilinu eitt til þrettán stig í dag.
Frost verður á bilinu eitt til þrettán stig í dag. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hæglætis veðri framan af í dag en að það verði sums staðar él fyrir norðan og allra syðst.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði skýjað að mestu og að undir kvöld færist snjókomubakki yfir Suðausturland.

Reikna má með norðlægri átt, víða þrír til tíu metrar á sekúndu, og að frost verði á bilinu eitt til þrettán stig. Kaldast verður í innsveitum norðaustanlands en sums staðar frostlaust syðst.

„Á morgun verður vindur norðlægur á vesturhelmingi landsins, en suðaustlægur fyrir austan. Éljagangur nokkuð víða og frost um mest allt land,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Norðvestan 5-13 m/s og snjókoma með köflum á vestanverðu landinu, en líklega þurrt allra vestast. Hæg suðlæg átt og úrkomulítið austantil. Frost víða 0 til 5 stig, en frostlaust við suðurströndina. Styttir upp vestantil undir kvöld, en fer þá að snjóa fyrir austan og kólnar í veðri.

Á sunnudag: Norðlæg átt víða, 3-10 m/s. Stöku él, einkum syðst og austast, annars víða bjartviðri. Frost 2 til 13 stig, kaldast inn til landsins.

Á mánudag: Hæg breytileg átt, yfirleitt léttskýjað og talsvert frost, en austankaldi, stöku él og mildara syðst.

Á þriðjudag: Austanstrekkingur og skýjað, en él syðst og austast og áfram frost víðast hvar.

Á miðvikudag og fimmtudag: Útlit fyrir austanátt, víða dálítil él og áfram svalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×