Innlent

Segir niður­stöðu um­boðs­manns ekki á­fellis­dóm

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómsmálaráðherra segir umboðsmann á mörkunum.
Dómsmálaráðherra segir umboðsmann á mörkunum. Vísir/Arnar

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist undrandi yfir þeirri niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis að ráðherrann hafi brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum þegar hann tók ákvörðun um aukinn vopnaburð lögreglu án þess að bera málið upp í ríkisstjórn.

„Nei, þetta er alls enginn áfellisdómur yfir minni stjórnsýslu. Það er mikilvægt að hafa í huga að umboðsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki brotið nein lög,“ segir Jón í samtali við Fréttablaðið.

„Mér finnst þetta á mörkunum hjá umboðsmanni og ekki rökstutt með neinum fordæmum af hans hálfu,“ segir ráðherra.

Þvert á það sem Jón heldur fram er ekki hægt að túlka niðurstöðu umboðsmanns og bréf hans til forsætisráðherra öðruvísi en svo að sannarlega sé um að ræða áfellisdóm yfir stjórnsýslu dómsmálaráðherra.

Málið varðar ákvörðun Jóns um að heimila lögreglu að bera rafbyssur en hann tilkynnti um ákvörðunina 30. desember síðastliðinn í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Sama dag undirritaði hann reglur þar að lútandi og þá voru þær sendar til birtingar í Stjórnartíðindum samdægurs.

Þennan sama dag, 30. desember, var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð um ákvörðun Jóns og sagðist hún vilja ræða málið í ríkisstjórn. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en um miðjan janúar.

Í áliti sínu segir umboðsmaður að Jóni hefði verið í lófa lagt að fresta málinu þar til það hefði verið rætt á ríkisstjórnarfundi. Segir hann ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að Jón hafi hunsað ósk forsætisráðherra.

Þá rökstyður hann þá niðurstöðu sína að Jón hafi brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum með því að vísa í ákvæði laga og stjórnarskrár auk svara frá forsætisráðherra.

Forsætisráðherra hafi talið að um „áherslubreytingu“ væri að ræða og því væri um að ræða „mikilvægt stjórnarmálefni“, sem ráðherra bæri sannarlega að bera upp í ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×