Fótbolti

Peningahljóð út af stjórnarfundi FIFA í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Modric með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn á Liverpool í úrslitaleiknum í fyrra.
Luka Modric með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn á Liverpool í úrslitaleiknum í fyrra. Getty/Alex Livesey

Ekki ein heldur tvær heimsmeistarakeppnir félagsliða hjá FIFA í framtíðinni.

Ekki veit ég hvort að forystumenn FIFA hafi spilað „Money“ með Pink Floyd á fundi sínum í gær en að bætist vel í kassann eftir þær ákvarðanir sem voru teknar í gær og fórnarlömbin eru án vafa þreyttir fætur bestu fótboltamanna heims.

Það kom svo sannarlega peningahljóð út af stjórnarfundi Alþjóða knattspyrnusambandsins í gær þegar samþykktar voru breytingar á stærstu keppnum sambandsins.

Eins og áður hefur komið fram þá var staðfest fjölgun á bæði liðum og leikjum á heimsmeistaramóti landsliða.

Nú keppa 48 þjóðir á HM og það verður byrjað á tólf fjögurra liða riðlum og svo farið í 32 liða úrslit. Þetta þýðir allt saman að nú þarf í fyrsta sinn að spila átta leiki ætli þjóð að verða heimsmeistari og að heildarleikir á mótinu eru nú orðnir 104.

Það voru aftur á móti fleiri breytingar gerðar á keppnum FIFA.

Framkvæmdastjórn FIFA ákvað nefnileg að það verði tvær mismunandi heimsmeistarakeppnir félagsliða í gangi hjá sambandinu á sama tíma.

Fyrsta 32 liða heimsmeistarakeppni félagsliða fer fram í júní 2025 og verður síðan haldin á fjögurra ára fresti. Meðal liða sem fá þátttökurétt þar eru öll liðin sem vinna Meistaradeildina frá því að síðasta HM félagsliða fór fram.

Evrópa fær tólf af þessum 32 liðum en hin átta liðin komast inn eftir styrkleikaröðun UEFA.

Þrátt fyrir þessa nýju keppni þá mun FIFA halda áfram með hina árlegu heimsmeistarakeppni félagsliða. Þar mun fulltrúi Evrópu alltaf komast í úrslitaleikinn og mætir þegar liði sem hefur betur í keppni hinna álfumeistaranna.

Sá leikur verður áfram spilaður árlega.

Það er ljóst að með sölu á sjónvarps- og auglýsingasamingum á þessa aukaleiki og aukamót þá munu tekjur FIFA aukast verulega. Knattspyrnussambönd heimsins græða líka á því enda fá þau hluta af kökunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×