Erlent

Kirkjugarður í Wales varð að vígvelli

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk átti fótum sínum fjör að launa er átökin fóru fram í kirkjugarðinum í Swansea síðasta sumar.
Fólk átti fótum sínum fjör að launa er átökin fóru fram í kirkjugarðinum í Swansea síðasta sumar.

Nýlega opinberað myndband sýnir hvernig hópur manna barðist með hömrum, kylfum, hnífum, öxum og sveðjum í Morriston kirkjugarðinum í Swansea í Wales í fyrra. Þrettán hafa verið dæmdir vegna átakanna en þau leiddu til þess að nokkrir særðust alvarlega, jarðarfarir voru truflaðar og legsteinar skemmdir.

Kalla þurfti vopnaða lögregluþjóna til og voru margir handteknir. Átökin eru rakin til erja nokkurra fjölskyldna í Wales.

Í frétt BBC frá því í febrúar segir að meðlimir tveggja fjölskyldna, Coffey og O'Brian, hafi verið í kirkjugarðinum vegna athafnar þegar verið var að blessa legstein Michael og Margaret O'Brian. Svo virðist sem að menn úr tveimur öðrum fjölskyldum, Murphy og Thomas, hafi ráðist á fólk á athöfninni.

Í frétt Wales Online segir að þrír af mönnunum hafi truflað athöfn í kapellu í kirkjugarðinum með því að hlaupa þar inn, hrækja á gólfið, drekka vatn úr vasa og fela vopn meðal kransanna sem borist höfðu vegna athafnarinnar. Fyrst reyndu þeir þó að afmá fingraför sín af vopninu.

Fólk í kirkjugarðinum átti fótum sínum fjör að launa og þurftu margir að forðast það að verða fyrir bílum sem ekið var um á miklum hraða.

WO hefur eftir þeim sem leiddi rannsókn lögreglunnar að það hafi verið mikil heppni að enginn hafi dáið í átökunum eða vegna þeirra. Þá segir hann að miklu púðri hafi verið varið í að rannsaka málið og púsla saman hvað gerðist þennan dag.

Meðal annars var notast við myndefni úr myndavélum úr bílum sem skildir voru eftir í kirkjugarðinum en einnig var leitað að fingraförum og blóði í þessum bílum. Þar að auki tóku vitni fjölmörg myndbönd og var einnig notast við myndefni úr öryggismyndavélum.

Myndbönd sem fjölmiðlar ytra hafa sett saman úr myndefni frá lögreglunni má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×