„Þetta er svona ósköp venjulegt mars-kuldakast sem við höfum séð annað veifið á þessum árstíma undanfarin ár. Hvorki meira né svartara en önnur slík. Norðurhjarinn er orðinn ansi kaldur og þetta kalda loft leitar oft suður á bóginn,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við fréttastofu.
Hann segir að kuldakastið muni vara að minnsta kosti fram að næstu helgi, jafnvel lengur.
„Það byrjaði að kólna í gær og þá kom frost um allt land. Menn finna það í dag að það er ansi kalt og svo er vindur með þessu, ólíkt kuldanum sem var í desember þar sem það var mikið hægvirði.“
Veðrið fyrir helgi var með besta móti og héldu einhverjir að vor væri á næsta leyti.
„Það er eins og segir í bók sem markaði upphaf umhverfisstefnunnar: raddir vorsins þagna. Þessar raddir vorsins þögnuðu ansi skyndilega enda hefði verið óeðlilegt ef við hefðum farið, í byrjun mars, beinustu leið í eitthvað sem við getum kallað vor. Ef það væri eitthvað slíkt uppi á teningnum væri maður orðinn ansi hræddur um loftslagsbreytingar,“ segir Einar.
Hreinræktað heimskautaloft
Einar segir að kalda loftið komi af ísbreiðunum nærri norðurpólnum. Á veðurvefnum Blika.is er fjallað um uppruna loftsins með skýringarmynd.

„Loftið er líka þurrt, ekki mikill raki í því. En fyrst og fremst er þetta kuldi og vindkæling sem fylgir þessu áfram,“ segir Einar.