Þetta staðfestir talsmaður þeirra Harry og Meghan að því er segir í frétt BBC. Talsmaður bresku konungshallarinnar hefur þó ekki viljað tjá sig um málið.
Harry og Meghan búa nú í Kaliforníu með tveimur börnum sínum, þeim Archie og Lilibet. Þau hættu að starfa sem fulltrúar konungsfjölskyldunnar árið 2020 og yfirgáfu Bretland skömmu síðar.
Frogmore-bústaðurinn er tíu herbergja eign á lóð Windsor-kastala, en það var Elísabet drottning, amma Harrys, sem bauð honum og Meghan húsið til afnota. Drottningin lést í september 2022 og varð Karl, faðir Harry, þá konungur.
Gerðu upp húsið fyrir hundruð milljóna
Harry og Meghan létu gera húsið upp, sem er í eigu konungsfjölskyldunnar, fyrir um 2,4 milljónir punda á árunum 2018 til 2019. Það samsvarar rúmlega 400 milljónum íslenskra króna á núvirði. Fram kom að breskir skattborgarar hafi upphaflega staðið straum af kostnaði við endurbæturnar en hertoginn hafi síðar endurgreitt kostnaðinn sjálfur.
BBC segir frá því að þau Harry og Meghan hafi fengið skilaboð um að tæma Frogmore í janúar síðast liðnum, fáeinum dögum eftir útgáfu bókar Harry, Spare.
Bókin seldist í bílförmum en þar segir Harry meðal annars frá því að bróðir han, Vilhjálmur prins, hafi í eitt skipti ráðist á hann og að þeir bræður hafi biðlað til föður þeirra að giftast ekki Kamillu Parker-Bowles.
Andrés flytur inn
Til stendur að veita Andrési prins fái Frogmore kotið til afnota en hann býr nú í rúmlega þrjátíu herbergja húsi á lóð Windsor. Móðir hans lét hann hætta störfum fyrir konungsfjölskylduna árið 2019 eftir sjónvarpsviðtal þar sem hann svaraði ásökunum um að hann hefði ráðist kynferðislega á Virginia Giuffre. Hann neitaði sök í málinu.
Fyrir um ári náðist sátt í málinu þar sem Andrés greiddi Giuffre óþekkta upphæð gegn því að hún myndi falla frá stefnu sinni í málinu. Óstaðfestar fréttir hafa borist af því að til standi að stöðva árlegar greiðslur til Andrésar sem myndi gera honum erfitt fyrir að reka heimili. Hann hefur einnig verið sviftur öllum titlum sem hann bar í breska hernum.