Innlent

Björtustu reiki­stjörnurnar í nánu sam­neyti í kvöld

Kjartan Kjartansson skrifar
Samstaða Venusar og Júpíters gæti litið svona út rétt fyrir klukkan 21:00 í kvöld.
Samstaða Venusar og Júpíters gæti litið svona út rétt fyrir klukkan 21:00 í kvöld. Stjörnufræðivefurinn

Venus og Júpíter, tvær björtustu reikistjörnurnar á næturhimninum, verða þétt saman á himni í kvöld. Hægt verður að sjá þær saman í sjónsviði handsjónauka og víðra stjörnusjónauka með lítilli stækkun.

Reikistjörnurnar tvær döðruðu við tunglið í byrjun síðustu viku og voru þá hvor sínu megin við vaxandi mánasigð, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum. Parið verður sérstaklega nálægt hvor öðru í svokallaðri samstöðu á himinum í kvöld.

Um er að gera fyrir áhugasama að njóta Júpíters á meðan þeir geta. Hann lækkar á lofti og hverfur sjónum frá Íslandi í seinni hluta þessa mánaðar. Venus verður aftur á móti kvöldstjarna fram á mitt sumar þar til hún hverfur inn í sumarbirtuna. Í apríl verður meðal annars hægt að sjá reikistjörnuna skammt frá Sjöstirninu svonefnda með handsjónauka.

Júpíter er stærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar og næstbjartasta fyrirbærið á himinum á eftir Venusi ef sólin og tunglið eru ekki talin með. Hægt er að sjá fjögur stærstu tungl Júpíters, Galíleótunglin svonefndu, með handsjónauka eða litlum stjörnusjónauka.

Venus er næsta reikistjarnan við jörðina ef miðað er við sporbrautir þeirra beggja. Plánetan er um það bil á stærð við jörðina. Það er þó ekki aðeins hlutfallsleg nálægðin sem gerir Venus svo bjarta á næturhimninum. Reikistjarnan er hulin þykkum lofthjúpi sem er fyrst og fremst úr koltvísýringi. Hann endurvarpar meirihluta sólarljóss sem fellur á hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×