Lífið

Af­lýsir tón­leika­ferða­laginu vegna veikinda

Máni Snær Þorláksson skrifar
Justin Bieber á tónleikum í Kaliforníu í fyrra.
Justin Bieber á tónleikum í Kaliforníu í fyrra. Getty/Kevin Mazur

Kanadíski tónlistarmaðurinn Justin Bieber hefur aflýst öllum tónleikunum sem eftir voru af Justice tónleikaröðinni. 

Ástæðan fyrir þessu er barátta Bieber við Ramsay Hunt heilkennið. Um er að ræða taugasjúkdóm sem veldur lömun í andlitinu. 

Það er óhætt að segja að þetta tónleikaferðalag Bieber hefur ekki gengið vel. Fyrstu tónleikarnir áttu að fara fram í maí árið 2020 og þeir síðustu í september sama ár. 

Fresta þurfti öllum tónleikunum til ársins 2021 vegna Covid-19 faraldursins. Þar sem faraldurinn var ennþá í gangi árið 2021 var tónleikunum aftur frestað, í þetta skiptið til ársins 2022.

Bieber tókst loksins að halda fyrstu tónleikana í febrúar í fyrra. Hann fór á fullt í kjölfarið og hélt tónleika víðsvegar um Bandaríkin, Kanada og Mexíkó fram í júní.  Í júlí færði hann sig svo yfir til Evrópu, hélt tónleika meðal annars í öllum Norðurlöndunum fyrir utan Ísland. Eftir það hélt hann til Suður-Ameríku og hélt eina tónleika í Rio de Janeiro í Brasilíu.

Hann átti eftir að halda fleiri tónleika í Suður-Ameríku sem og í Asíu, Afríku og Evrópu. Það er þó ljóst núna að ekkert verður af þeim tónleikum. Síðustu tónleikarnir á ferðalaginu voru því þeir sem haldnir voru í Rio de Janeiro.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.