Erlent

Tinubu verður forseti Nígeríu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bola Tinubu verður næsti forseti Nígeríu.
Bola Tinubu verður næsti forseti Nígeríu. AP/Ben Curtis

Bola Tinubu, frambjóðandi stjórnarflokksins APC í Nígeríu, verður næsti forseti Nígeríu. Niðurstöður kosninganna voru staðfestar í nótt en alls voru átján manns í framboði. 

Muhammadu Buhari hefur leitt nígersku þjóðina síðan í maí árið 2015. Hann bauð sig ekki fram til forseta í ár og vildu átján manns taka við af honum. Einungis þrír frambjóðendur voru taldir vera líklegir til að hreppa embættið, þeir Bola Tinubu, Peter Obi og Atiku Abubakar. Tinubu tilheyrir sama stjórnmálaflokk og Buhari, APC.

Tinubu hlaut 8,8 milljónir atkvæða eða 36,6 prósent, Abubakar hlaut 7 milljónir atkvæða eða 29,1 prósent og hlaut Obi 6,1 milljón atkvæða eða 25,3 prósent.

Til að tryggja sér forsetaembættið þurfti frambjóðandi að ná flestum atkvæðum, auk þess að tryggja sér að minnsta kosti fjórðung atkvæða í 25 af 36 ríkjum Nígeríu. Það var staðfest í nótt að Tinubu hafi tekist það.

Tinubu verður vígður í embættið þann 29. maí næstkomandi, eftir tæpa þrjá mánuði. 

Hér fyrir neðan má sjá þegar stuðningsmenn Tinubu fögnuðu kjöri hans. 

Klippa: Stuðningsmenn Tinubu fagna kjöri hans

Tengdar fréttir

Tinubu leiðir en deilt um talningu í nígerísku for­seta­kosningunum

Nígeríumenn bíða enn eftir að fá skýra mynd af því hvernig atkvæði féllu í forsetakosningunum sem fram fóru um helgina. Búið er að birta niðurstöður í fjórtán af 36 ríkjum og er Bola Tinubu, frambjóðandi stjórnarflokksins APC og fyrrverandi ríkisstjóri Lagos, með um 44 prósent atkvæða þar sem niðurstöður liggja fyrir. Þar er þó um að ræða lágt hlutfall af heildarfjölda atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×