Fótbolti

Ofurfyrirsæta til starfa hjá FIFA

Sindri Sverrisson skrifar
Adriana Lima er brasilísk og mikill fótboltaaðdáandi.
Adriana Lima er brasilísk og mikill fótboltaaðdáandi. Getty/Marilla Sicilia

Brasilíska ofurfyrirsætan Adriana Lima, sem einnig hefur reynt fyrir sér sem leikkona, hefur verið ráðin í nýja stöðu hjá FIFA, alþjóða knattspyrnusambandinu.

Lima hefur verið ráðin sem sendiherra stuðningsmanna (e. fan ambassador) og verður hún til að mynda á svæðinu í París í kvöld þegar FIFA veitir verðlaun vegna besta knattspyrnufólks ársins.

Hlutverk Lima er að þróa, kynna og taka þátt í nokkrum viðburðum fyrir knattspyrnuáhugafólk um allan heim, eins og það er orðað í tilkynningu FIFA. Þar tjáir Gianni Infantino, forseti FIFA, sig um ráðninguna:

„Þegar að maður hittir Adriönu finnur maður strax hlýju hennar og vinsemd, og hvað hún er áhugasöm og ástríðufull varðandi íþróttina okkar. Hún lifir og andar fótbolta og þess vegna getur hún orðið fullkomin tenging á milli FIFA og stuðningsmanna um allan heim.“

Sjálf er Adriana Lima hæstánægð með sitt nýja hlutverk:

„Hafandi alist upp við mjög hóflegar aðstæður og verandi aðdáandi fótbolta, þá er ég mjög þakklát og stolt af að hafa verið valin af FIFA sem fyrsti alþjóðlegi sendiherra stuðningsmanna, og fá þannig leið til hjálpa stuðningsmönnum að komast enn nær leiknum,“ sagði Lima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×