Börsungar voru á mikilli sigurgöngu og voru raunar taplausir á þessu ári þar til þeir töpuðu fyrir Man Utd á Old Trafford síðastliðið fimmtudagskvöld og fylgdu því svo eftir með 1-0 tapi gegn Almeria í kvöld.
„Ég er reiður af því að þetta er versti leikur sem við höfum spilað á þessu tímabili, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Okkur skorti ákefð og flæði. Við sýndum enga ástríðu í að vinna leikinn,“ sagði Xavi, stjóri Barcelona í leikslok.
„Þetta var skárra í síðari hálfleik. Þetta var erfiður leikur og vondur dagur fyrir okkur en við höfum enn sjö stiga forystu á toppnum.“
„Það verður erfitt að vinna La Liga en við þurfum að bregðast við núna. Við höfum ekki sýnt fram á að við viljum virkilega vinna,“ sagði Xavi.
Hann mun þó ekki fá að stýra liði sínu af hliðarlínunni í næsta leik þar sem hann er kominn í leikbann eftir að hafa fengið sitt fimmta gula spjald á leiktíðinni í kvöld.