Lífið

Bannað að heita Peran: „Mikill harmur á heimilinu“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Magnús Sigurjón Guðmundsson hefur verið kallaður Maggi Peran síðan hann man eftir sér.
Magnús Sigurjón Guðmundsson hefur verið kallaður Maggi Peran síðan hann man eftir sér. Aðsend

Mannanafnanefnd hefur úrskurðað að ekki megi heita Peran að millinafni. Nafnið uppfylli ekki lagaskilyrði. Umsækjandi segir mikinn harm ríkja á heimilinu vegna málsins.

„Ef litið er svo á að millinafnið Peran sé dregið af íslenskum orðstofni (pera) þá er ekki hægt að samþykkja það þar sem það hefur þá nefnifallsendingu (með viðskeyttum greini). Ef hins vegar er litið svo á að nafnið sé ekki skylt orðinu pera þá er ekki heldur hægt að samþykkja það því að það er þá ekki af íslenskum orðstofni,“ segir í nýlegum úrskurði mannanafnanefndar.

„Ég reyndi eins og ég gat“

Magnús Sigurjón Guðmundsson, Maggi Peran, er umræddur umsækjandi. Hann segist hafa verið kallaður Peran síðan hann man eftir sér.

„Ég reyndi eins og ég gat að fá þá til þess að jánka þessu, sendi nokkra tölvupósta, en allt kom fyrir ekki, þeir neituðu. Ég verð bara að halda áfram að kalla mig þetta,“ segir Maggi Peran og hlær.

Hann segist ekki ætla að taka málinu of alvarlega.

„Ég er kannski ekkert sérstaklega ósáttur en aftur á móti eru börnin mín það. Þau voru búin að ákveða að fá að taka þetta upp líka ef þetta yrði samþykkt. Þannig að það voru þung spor að tilkynna þeim það að einhver aðili úti í bæ hafi bannað mér að heita þetta - sem ég hef verið kallaður síðan ég man eftir mér. Þannig eigum við ekki að segja að það sé mikill harmur á heimilinu,“ segir hann glettinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×