Körfubolti

„Enginn dómari hefur komið til mín og sagst vera að hætta því hann fái ekki nógu vel greitt“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hannes S. Jónsson er formaður KKÍ.
Hannes S. Jónsson er formaður KKÍ. Vísir

Körfuboltadómarar á Íslandi hafa verið með lausan samning við Körfuknattleikssambandið í níu ár. Sambandið kveðst ekki skylt að semja sérstaklega við verktakastétt.

Dómarar höfnuðu í þessum mánuði samningi sem gerður var á milli Körfuknattleiksdómarafélags Íslands og Körfuknattleikssambandsins. KKÍ lýsti yfir vonbrigðum með vinnubrögð dómara í málinu.

„Samkvæmt lögum og reglum KKÍ þá er það KKÍ sem á að gefa út gjaldskrá og allt sem tengist dómurum. Það er KKÍ og dómaranefnd KKÍ sem eru yfirmenn dómaramála á landinu. Við getum alveg samið við þá og talað við þá enda gerðum við það. Það hafa ekki verið samningar undanfarin ár,“ sagði Hannes S. Jónsson í samtali við Andra Má Eggertsson fréttamann í vikunni.

KKÍ kveðst ekki skylt að skrifa undir samninga við dómara en þá yfirlýsingu voru dómarar ekki sáttir með.

„Ég held það hafi ekkert farið öfugt ofan í þá, við höfum alltaf verið tilbúnir til að taka spjallið. Það hafa ekki verið samningar undanfarin ár en við vorum til í það og þess vegna settumst við niður og gerðum með þeim samning. Okkur er ekki endilega skylt að gera það, þá er ég ekki þar með að segja að við getum það ekki eða gerum það ekki. Þannig er regluverkið.“

Samningar hafa verið lausir síðan árið 2014. Hannes segir að sambandið hafi gert umtalsverðar hækkanir á kjörum dómara og breytt umhverfi dómara sem geri þeim þægilega að fara í ferðalög.

„Dómgæsla snýr líka niður í yngri flokka og við höfum verið að leggja áherslu á að hækka gjöldin þar upp á síðkastið og það er að frumkvæði KKÍ. Það hækkuðu laun fyrir síðasta tímabil um 16-46% í yngri flokkum og um 10% í efsta laginu í Subway-deildum og á fleiri stöðum.“

Hannes segir enga dómara hafa komið til sín og segist vera að hætta því hann fái ekki nóg greitt heldur sé starfsumhverfi dómara erfitt enda þeim sýnd vanvirðing og dónaskapur í leikjum af þeim sem taka þátt.

Allt viðtalið við Hannes má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×