Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 23-26 | Ótrúleg endurkoma Eyjamanna

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Dagur Arnarsson skoraði átta mörk.
Dagur Arnarsson skoraði átta mörk. vísir/daníel

Eftir að hafa lent 9-1 undir eftir tíu mínútna leik snéru Eyjamenn bökum saman og unnu ótrúlegan þriggja marka sigur er liðið heimsótti Stjörnuna í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 23-26.

Skrítið, það er kannski besta orðið fyrir þennan handboltaleik.

Stjörnumenn komu dýrvitlausir út úr hliðunum og Eyjamenn áttu nákvæmlega engin svör. Það var líkt og þeir væru sjóveikir í byrjun leiks; þeir voru að spila hörmulega, það gekk ekkert upp. Dagur Arnarsson minnkaði muninn á þriðju mínútu í 2-1 en eftir það tókst ÍBV ekki að skora í einhverjar níu, tíu mínútur. Á þeim tíma gerði Stjarnan sjö mörk og var staðan fljótlega orðin 9-1.

Stjarnan vann frábæran bikarsigur á Valsmönnum í síðustu viku og það stefndi allt í algjöra upprúllun í kvöld. En því miður fyrir Stjörnuna þá héldu leikmenn liðsins það líka, að þetta yrði bara þægileg upprúllun.

Eyjamenn breyttu í 5-1 vörn og það var lykillinn að því að þeir komust aftur inn í leikinn. Stjarnan skoraði bara fjögur mörk á síðustu 20 mínútum fyrri hálfleik. Gestirnir fengu rosalega Eyjastemningu með sér og þegar flautað var til hálfleiks munaði einungis tveimur mörkum.

Stjarnan byrjaði betur í seinni hálfleik, en Eyjamenn létu það ekki á sig fá. Þeir sýndu gríðarlegan karakter með því að halda sér inn í leiknum. Stjarnan komst í 17-14 en áður en maður blikkaði augunum þá voru Eyjamenn búnir að jafna í 17-17.

Heimamenn spyrntu aðeins frá sér við það, en ÍBV var alltaf nálægt. Á 54. mínútu komst svo ÍBV yfir í fyrsta sinn þegar Dagur galopnaði miðja vörn Stjörnunnar. Dagur reyndist drjúgur í seinni hálfleik og var hann herforinginn í leið að þessum sigri. ÍBV skoraði fjögur mörk í röð úr stöðunni 22-22, og við það lönduðu þeir gífurlega flottum sigri.

Stjörnumenn héldu að þeir væru að fá þægilegan dag á skrifstofunni, en Eyjamenn voru aldrei að fara að leyfa þeim að komast upp með það. Viðstaddir hugsuðu mögulega að þetta væri búið eftir tíu mínútur en svo var alls ekki.

ÍBV fer núna upp fyrir Stjörnuna í fjórða sæti deildarinnar.

Af hverju vann ÍBV?

Þeir sýndu gríðarlegan karakter þegar fyrstu tíu mínútunum var lokið. Þeir voru litlir í sér fyrstu tíu mínúturnar og það var eins og þeim langaði að drífa sig heim til Eyja. Þeir virtust ekki tilbúnir. En svo gerðist eitthvað. Eyjamenn urðu stórir, þeir breyttu til í vörninni og fóru að spila mun betur.

ÍBV fékk stemninguna með sér í seinni hálfleiknum og þá er ekkert lið að fara að stoppa þá.

Hverjir stóðu upp úr?

Dagur Arnarsson var gríðarlega góður fyrir ÍBV eftir því sem leið á leikinn. Þá skilaði Elmar Erlingsson góðu dagsverki. Ívar Bessi Viðarsson var fyrir framan í 5-1 vörn Eyjamanna og spilaði frábærlega.

Hjá Stjörnunni voru Starri Friðriksson og Tandri Már Konráðsson markahæstir. Adam Thorstensen átti þá fínan leik í markinu.

Hvað gekk illa?

Stjörnumenn voru sjálfum sér verstir. Eftir að þeir náðu upp góðu forskoti þá fóru þeir að gera vond mistök sem urðu þeim lokum að falli. Hausinn fór hjá Garðbæingum.

Hvað næst?

ÍBV spilar við Aftureldingu næsta sunnudag, og þá leikur Stjarnan við Hörð á Ísafirði næstkomandi mánudagskvöld.

Einhverjir hefðu grafið djúpa gröf og einfaldlega hætt“

Dagur Arnarsson átti flottan leik fyrir ÍBV í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Dagur Arnarsson skoraði átta mörk í sigri ÍBV í kvöld. Hann var að vonum glaður að leik loknum í Garðabæ.

„Þetta var gífurlega furðulegur leikur, sérstaklega af okkar hálfu. Við mætum inn í þennan leik eins og ég veit ekki hvað,“ sagði Dagur. „Við erum með bakið upp við vegg en náum að koma til baka. Við sýnum þvílíkan karakter. Við missum aldrei trú á þessu verkefni.“

ÍBV lenti 9-1 undir á fyrstu tíu mínútunum. Hvað fór í gegnum hugann á mönnum í þeirri stöðu?

„Það er voða lítið, að gera hlutina af krafti og gera þá vel. Við mættum ekki tilbúnir. Ef við gerum hlutina vel þá vitum við hvað í okkur býr. Við þurfum að vinna okkur inn í þetta þannig. Ég tek ekkert af Stjörnunni í byrjun leiks. Þeir keyrðu á okkur og við vorum í vandræðum.“

„Ég er himinlifandi. Einhverjir hefðu grafið djúpa gröf og einfaldlega hætt. Það var enginn leikmaður í okkar liði að fara að gera það. Við fórum í skel en við unnum okkur til baka úr því. Það lögðu allir í púkkið. Þetta er frábær karakter og ég er mjög stoltur.“

Þetta er mikilvægur sigur fyrir ÍBV í baráttunni um annað sætið. „Við erum bara að hugsa um næsta leik, en ég veit ekki einu sinni hvaða leikur það er. Við erum að einbeita okkur að næsta verkefni.“

Er að koma vor en það var samt einhvern veginn haustbragur á þessu“

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.Vísir/Diego

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var gríðarlega sáttur með sína menn eftir sigurinn á Stjörnunni.

„Þetta var skrýtin upplifun. Leikirnir hérna eru oft köflóttir og þessi var ansi köflóttur. Það er svona tilfinningin, skrýtin,“ sagði Erlingur eftir þennan frekar furðulega leik.

„Það voru eiginlega allir að klikka í byrjun; sókn, vörn og markvarsla. Við vissum að þetta yrði erfitt og það voru ekki margir að finna sig, en sem betur fer náðum við að snúa dæminu við. Ívar Bessi kom sterkur inn í 5-1 vörnina og svo fengum við framlag frá fleirum sóknarlega í seinni hálfleik.“

Var 5-1 vörnin lykillinn að þessum sigri? „Já. Staðan var 9-1 eftir tíu mínútur og við endum með því að fá 23 mörk á okkur. Varnarleikurinn var frábær.“

Stórskyttan Rúnar Kárason var fjarri góðu gamni í þessum leik. Hversu langt er í hann?

„Hann hittir lækninn á morgun og þá verður farið yfir stöðuna. Í versta falli er þá speglun á fimmtudaginn.“

ÍBV fer upp í fjórða sæti með þessum sigri. „Þetta var ekki fallegasti handbolti sem við höfum leiki, og ég held að það sama eigi við um Stjörnuna. Þetta var köflóttur leikur. Það er að koma vor en það var samt einhvern veginn haustbragur á þessu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira