Fótbolti

Blikar hefndu fyrir tapið gegn FH

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugdsson kom Blikum á bragðið í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugdsson kom Blikum á bragðið í kvöld. Vísir/Hulda MArgrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu góðan 3-1 sigur er liðið tók á móti FH í riðli tvö í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta í kvöld.

Þessi tvö lið mættust einmitt í úrslitum Þungavigtarbikarsins fyrir tæpum hálfum mánuði síðan þar sem FH-ingar unnu afar öruggan 4-0 sigur.

Það voru hins vegar Blikar sem voru fyrri til að brjóta ísinn í kvöld þegar Höskuldur Gunnlaugsson skoraði úr vítaspyrnu strax á níundu mínútu áður en Stefán Ingi Sigurðarson tvöfaldaði forystu liðsins rúmum tíu mínútum síðar.

Vuk Oskar Dimitrijevic minnkaði muninn fyrir FH-inga tæpum tíu mínútum fyrir hálfleik, en Björn Daníel Sverrisson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 42. mínútu og staðan var því 3-1 í hálfleik.

Ekki urðu mörkin fleiri í leik kvöldsins og niðurstaðan varð því 3-1 sigur Blika sem tróna á toppi riðils tvö með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

FH-ingar sitja hins vegar í örðu sæti með þrjú stig, líkt og Selfoss sem vann góðan 1-0 sigur gegn Leikni Reykjavík á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×