CrossFit samtökin hafa alltaf gert mikið úr þessum kynningarkvöldum og svo var einnig í gær. Útsendingin frá Madrid var hin glæsilegasta og flott stemmning í salnum.
Björgvin Karl Guðmundsson keppti við Lazar Djukic karlamegin og hafði Djukic betur, náði 287 endurtekningum á móti 276 endurtekningum hjá okkar manni. Þeirra æfing er gild en ekki er sömu sögu að segja um æfingu stelpnanna.

Hjá konunum kepptu Laura Horvath og Gabriela Migala og kláruðu þær æfinguna sína með glæsibrag.
Það uppgötvaðist hins vegar eftir á að ketilbjöllur þeirra voru ekki af réttri þyngd. Þær voru 38 kíló á þyngd en áttu að vera fimm kílóum þyngri eða 43 kíló.
Þær Horvath og Migala fá því æfingu sína ekki tekna gilda og þurfa því báðar að gera æfinguna aftur.
CrossFit samtökin bera fulla ábyrgð á þessum mistökum þótt þau bitni bara á þessum tveimur öflugu íþróttkonum. Þetta er auðvitað ótrúlegt klúður og mjög ósanngjarnt fyrir íþróttakonurnar.
Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins og báðust afsökunar á þessum mistökum. Hér fyrir neðan má sjá útsendinguna frá kynningunni á 23.1.