„Tilfinningin er bara geggjuð. Ekkert smá gaman að vera komin aftur loksins. Það er svo gaman að hitta stelpurnar og vera komin í þetta umhverfi sem manni líður svo rosalega vel í. Bara mjög jákvætt,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í samtali við KSÍ TV.
Karólína Lea var meidd seinni hluta ársins í fyrra og missti þar af leiðandi af mikilvægum landsleikjum. Hversu erfitt var það?
„Það var ömurlegt og sérstaklega þegar þessir leikir voru í gangi. Endurhæfingin var að ganga upp og niður og það var því mjög erfitt að vera fyrir utan en ég svo sem treysti þeim alveg fyrir þessu. Það bara gekk ekki í þetta skiptið,“ sagði Karólína Lea.
KSÍ TV ræddi við Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur eftir æfingu dagsins hér á Spáni.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) February 14, 2023
Ísland - Skotland í beinni útsendingu á KSÍ TV á morgun, miðvikudag, kl. 14:00.#dottir pic.twitter.com/elDmDNZPSW
„Vonandi notum við þessa glugga sem eru að koma núna til að verða betra lið,“ sagði Karólína.
Hún fór ekki í aðgerð vegna meiðslanna en þurfti að ganga í gegnum stranga endurhæfingu.
„Ég var sett svona á núllpunkt og var alveg frá í tvær vikur eins og ég hefði farið í aðgerð. Svo var byrjað að byggja mig upp skref fyrir skref. Þetta tók einhverja fjóra mánuði sirka þannig að ég ætti að vera orðin góð núna,“ sagði Karólína en er hún orðin hundrað prósent.
„Já ég er að komast nær og nær því. Þetta gekk bara mjög vel og ég náði einum leik fyrir áramót. Ég er síðan að komast meira og meira inn í þetta og ná mínu besta formi aftur,“ sagði Karólína.
Fyrsti leikur íslenska liðsins á Pinatar mótinu er í dag. Hvernig leggst hann í Karólínu.
„Bara mjög vel. Skotland er með hörku lið og ég er bara mjög spennt fyrir þessu,“ sagði Karólína.