Innlent

Fylgi Vinstri grænna heldur á­fram að dala í nýrri könnun

Atli Ísleifsson skrifar
Ef um væri að ræða niðurstöður kosninga þá væri ríkisstjórnin fallin.
Ef um væri að ræða niðurstöður kosninga þá væri ríkisstjórnin fallin. Vísir/Egill

Fylgi Vinstri grænna, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, heldur áfram að dala og mælist nú 5,9 prósent í nýrri skoðanakönnun Prósents fyrir Fréttablaðsins sem birt var í morgun. Sjálfstæðisflokkur mælist með rúmlega 23 prósenta fylgi og Samfylkingin með rúmlega 22 prósent.

Í grein Fréttablaðsins kemur fram að fylgi Vinstri grænna hafi verið átta prósent í könnun í nóvember og um sjö prósent í desember. Fram kemur að fylgi flokksins sé mest hjá fólki með 800 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun, eða tíu prósent.

Píratar mælast með 12,5 prósent og fara þar úr 14,3 prósentum í könnun Prósents í desember. Framsókn mælist nú með 11,8 prósent, einu meira en í desember. Flokkur fólksins mælist með 9,5 prósent, Viðreisn 6,9 prósent, Miðflokkurinn 4,1 prósent og Sósíalistaflokkurinn sömuleiðis.

Ef um væri að ræða niðurstöður kosninga væri ríkisstjórnin fallin og fengi 28 þingmenn kjörna á móti 35 þingmönnum stjórnarandstöðu.

Könnunin var netkönnun sem framkvæmd var dagana 27. janúar til 6. febrúar þar sem úrtakið var 2.400 manns og svarhlutfall 51,4 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×