Lífið

Liðsmaður De La Soul látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Trugoy the Dove á tónleikum í Pannsylváníu árið 2015.
Trugoy the Dove á tónleikum í Pannsylváníu árið 2015. Getty

Bandaríski tónlistarmaðurinn David Jolicoeur, einnig þekktur sem Trugoy the Dove, er látinn, 54 ára að aldri. Hann var liðsmaður hiphop-sveitarinnar De La Soul.

Jolicoeur var enn af þremur liðsmönnum De La Soul frá Long Island í New York, en sveitin þykir vera í hópi frumkvöðla á sviði hip hop tónlistar.

BBC segir frá því að enn liggi ekki fyrir um hvað hafi dregið Jolicoeur til dauða, en hann hafði áður greint frá því að hann glímdi við hjartaveikindi.

De La Soul var stofnuð árið 1987 og er þekktasta lag þeirra líklega Me, Myself and I af plötunni 3 Feet High and Rising. Sveitin var ásamt A Tribe Called Quest meðal þeirra fyrstu til að blanda saman djasstónum inn í hip hop.

Síðasta plata sveitarinnar var And the Anonymous Nobody sem kom út árið 2016. Tónlist sveitarinnar hefur ekki verið aðgengileg á streymisveitum, en til stendur að breyta því í næsta mánuði.

De La Soul var ásamt öðrum hip hop sveitum heiðruð á Grammy-tónlistarhátíðinni í síðustu viku, en Jolicoeur var þó ekki viðstaddur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.