Innlent

„Við náttúrulega skoðum allt“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Veðurfræðingur segir upptök skjálftanna hafa verið í öðru kerfi en því sem tengdist eldsumbrotum í Merardölum í ágúst í fyrra.
Veðurfræðingur segir upptök skjálftanna hafa verið í öðru kerfi en því sem tengdist eldsumbrotum í Merardölum í ágúst í fyrra. Vísir/Vilhelm

Jarðskjálftahrina hófst á Reykjaneshrygg skömmu fyrir klukkan sjö í gærkvöldi. Stærsti skjálftinn mældist 3,8 að stærð og um níutíu skjálftar hafa mælst síðan hrinan hófst. Hrinan er talin vera í rénun.

Sex skjálftar yfir þremur af stærð hafa mælst í hrinunni og fannst sá stærsti meðal annars á Akranesi. Upptök hans voru um fjóra kílómetra suðvestur af Reykjanestá og hafa skjálftarnir verið á fjögurra til sjö kílómetra dýpi.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir svæðið ekki tilheyra sama eldstöðvakerfi og því sem tengdist eldsumbrotum í Merardölum í ágúst í fyrra.

Á korti Veðurstofunnar má sjá hvar hrinan stendur yfir.Veðurstofan

„Þetta er ekki alveg sama hreyfing sem er í gangi þarna. Þannig að á þessu svæði, þar var seinast í desember árið 2022, þá var skjálfti 3,2 að stærð á þessum slóðum. Svo í júní 3,3, sem sagt árið 2022, og í maí 3,5. Þannig að það er mjög algengt að fá skjálfta á þessum slóðum.“

En er eldgos í nánd?

„Nei, það er alla vega ekkert sem bendir til þess. Við náttúrulega skoðum allt, en eins og staðan er núna þá bendir til þess að þetta sé hefðbundin skjálftahrina sem verður þarna á flekaskilunum,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hún segir að hrinan sé talin vera í rénun en gera megi ráð frá fleiri skjálftahrinum á svæðinu í náinni framtíð.


Tengdar fréttir

Skjálfta­hrina á Reykja­nesi

Skjálftahrina fór í gang á Reykjanesi klukkan 19 í kvöld. Fimmtán skjálftar yfir 2 að stærð hafa mælst á mjög skömmum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×