Selenskí sagði leiðtogum Evrópusambandsins í dag að áætlun þessi sneri að því að „eyða“ Moldóvu og að hann hefði sagt Maia Sandu, forseta ríkisins, frá þessari áætlun. Selenskí sagði að skjöl sem Úkraínumenn hefðu komið höndum yfir sýni „hver, hvenær og hvernig“ og að Rússar ætluðu sér að ná yfirráðum yfir Moldóvu.
Forsetinn sagði áætlunina líkjast því hvernig Rússar hefðu reynt að ná stjórn á Úkraínu en Selenskí sagðist ekki vita til þess að Vladimír Pútin, forseti Rússlands, hefði gefið grænt ljós á áætlunina.
Aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússlandi hafa frá árinu 1992 farið með völd í einu héraði Moldóvu sem kallast Transnistría. Þetta hérað er á landamærum Moldóvu og Úkraínu og þegar Rússar réðust upprunalega inn í Úkraínu í fyrra var útlit fyrir að eitt að markmiðum þeirra væri að tryggja landbrú til Transnistríu, þar sem Rússar hafa um árabilið verið með nokkur hundruð hermenn.
AP fréttaveitan segir að eftir ummæli Selenskís hafi leyniþjónusta Moldóvu gefið út yfirlýsingu um að þessar upplýsingar hefðu borist til þeirra og að þeir hefðu fundið ummerki um óvinveittar aðgerðir í Moldóvu sem ætlað væri að grafa undan ríkinu.
Í yfirlýsingunni sagði að ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu. Það myndi koma niður á öryggi ríkisins
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hélt því nýverið fram að Vesturlönd ætluðu sér að gera Moldóvu að „annarri Úkraínu“. Hann sagði Vesturlönd bera ábyrgð á kosningu Sandu og að hún vildi að Moldóva gengi inn í Atlantshafsbandalagið.