Innlent

Flutti inn 55 eða 47 pakkningar af kókaíni inn­vortis

Atli Ísleifsson skrifar
Konan kom til landsins með flugi 13. nóvember síðastliðinn. 
Konan kom til landsins með flugi 13. nóvember síðastliðinn.  Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu í tíu mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla um 700 grömmum af kókaíni með flugi til landsins í nóvember síðastliðinn.

Konan var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnabrot og í ákæru kemur fram að konan hafi flutt efnin, sem hafði 75 til 84 prósent styrkleika, í samtals 55 pakkningum sem falin voru innvortis.

Konan játaði sök í málinu en sagði að um 47 pakkningar hafi verið að ræða, ekki 55, og vildi hún því meina að magn efnisins hafi verið eitthvað minna en fram kom í ákæru. Að áliti dómsins leikur réttmætur vafi á því hvort innfluttar pakkningar hafi verið 55 eða 47 talsins.

Í dómnum er ekki tekið fram hvaðan konan var að koma þegar hún kom með flugi til Keflavíkurflugvallar þann 13. nóvember síðastliðinn.

Fram kemur í dómnum að konan hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Ekki verði ráðið að hún hafi verið eigandi fíkniefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Konan var dæmd til tíu mánaða fangelsisvistar, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem konan hafði sætt frá komunni til landsins. Þá er henni gert að greiða um tvær milljónir króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×