Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, birti áhugaverða mynd á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. Á myndinni má sjá að sæti Björns í þingsal er merkt: „Björn Leví Gunnarsdóttir.“
Í samtali við Vísi segist Björn Leví ekki vita hvernig þetta orsakaðist. „Ég hef ekki hugmynd,“ segir hann.
„Ég fór í Evrópuráðið í síðustu viku, þá tók varaþingmaður minn, hann Halldór Auðar, eftir þessu og sendi mér þetta.“
Björn Leví segist ekki kippa sér upp við merkinguna. Þegar Halldór vakti athygli hans á henni segist hann hafa hugsað með sér: „Já, hey sniðugt, ég hafði ekki tekið eftir þessu.“
Þetta er ennþá svona pic.twitter.com/AZ1apoGkE1
— Bjorn Levi (@_bjornlevi_) February 2, 2023
Þingmaðurinn veit ekki hversu lengi þessi merking hefur verið svona. „Ekki hugmynd, maður er oft með einhver skjöl og svona yfir þessu.“
Þá segir hann að þetta verði örugglega lagað á næstunni, þingverðirnir sjái yfirleitt um að redda svona löguðu.
„Ég bjóst við að það yrði búið að laga þetta en það gerist það sem gerist, þetta er fyndið á meðan.”
Björn Leví gantast að lokum með að þessi merking gæti hafa komið til vegna baráttu Pírata við Mannanafnanefnd. „Það er þetta Mannanafnanefnardót örugglega,“ segir hann og hlær.