Brautin yrði kílómetra löng og með 650 metra lyftu upp Kambana. Svæðið sem Kambagil vill nota undir brautina er austan við Svartagljúfur við Árhólma í Ölfusdal. Á sama svæði má finna sviflína sem Kambagil rekur einnig. Yrði þetta fyrsta braut sinnar tegundar á Íslandi.

Sleðabrautir sem þessi sem Kambagil vill setja upp eru afar vinsælar um allan heim. Sú lengsta er fimm sinnum lengri en sú sem yrði sett upp í Hveragerði, rúmir fimm kílómetrar, og er staðsett í Andorra.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af brautinni í Andorra.
Í erindi sem Kambagil sendi bæjarstjórn Hveragerðisbæjar segir að brautin myndi ekki skerða aðgengi að núverandi göngu- og reiðstígum á svæðinu. Notast yrði við sömu afgreiðslu og sviflínan og sama bílastæði. Stígur frá Breiðumörk að Svartagljúfri nýtist fyrir flutning gesta til og frá brautinni.
Brautin mun liggja um þrjátíu sentimetra frá jörðu og hvílir á pinnum. Því er hægt að taka brautina niður og setja hana aftur upp á örfáum dögum.
Áætlað er að hægt verði að opna brautina sumarið 2024 ef hægt verður að semja um deili- og skipulagsmál. Brautin verður opin allan ársins hring og einn starfsmaður þar á veturna og tveir á sumrin. Kambagil gerir ráð fyrir því að árlega myndu 35 til 40 þúsund manns renna sér niður brautina.
