Skoðun

Með­ferðin á Sól­veigu Önnu

Stefán Ólafsson skrifar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er eldklár kona og hörkudugleg. Hún er einnig gegnheil í baráttu sinni fyrir bættum kjörum láglaunafólks, bæði karla og kvenna. Sólveig Anna skreytir sig ekki með háskólagráðum en byggir málflutning sinn samt á staðreyndum og sérstaklega góðu jarðsambandi við aðstæður félagsmanna Eflingar. Hún er útsjónarsöm og pragmatísk og hefur sýnt sig að vera slyng samningakona.

Margir finna hins vegar að því að Sólveig Anna sé ófáguð í talsmáta og óvenju beinskeytt og stundum hvöss. Í karlaheimi fortíðar hefði sjálfsagt verið sagt um þá sem þannig tjáðu sig að þeir töluðu sjómannamál eða eins og Guðmundur Jaki - og naut það gjarnan virðingar. En beinskeyttur og gagnrýninn talsmáti Sólveigar Önnu er stundum notaður sem átylla til að telja hana ekki húsum hæfa. Þetta er notað gegn henni og sennilega meira en ef um karl væri að ræða. Hverjum hefði dottið í hug að fordæma talsmáta Guðmundar Jaka þegar hann las atvinnurekendum pistilinn á sinn hvassa hátt hér áður fyrr?

En þessi talsmáti Sólveigar Önnur kemur til af því, að hún er ákveðin og kröftug umbreytingakona. Það kallar á gagnrýni og hispursleysi í framsetningu til að ná árangri í umbreytingum, þegar tilefni til gagnrýni og brýninga eru næg. Og það eru þau vissulega þegar um er að ræða kjör og lífsbaráttu láglaunafólks - og ekki síst láglaunakvenna.

Bænaskrár að fornum sið og samráð undir forsjá atvinnurekenda og hagfræðinga þeirra duga ekki til að ná alvöru árangri fyrir láglaunafólk. Þetta veit Sólveig Anna öðrum fremur, enda sprettur hún sjálf upp úr jarðvegi láglaunaverkafólks. Hún reis upp úr grasrót nýju verkalýðsstéttarinnar, sem starfskona á leikskóla, sem á þeim tíma var með lægst launuðu störfunum á íslenskum vinnumarkaði.

Ég hef unnið með Sólveigu Önnu og veit hvaða kosti hún hefur og ég hef ítrekað orðið vitni að því, að hún hefur ekki notið sannmælis. Beinskeytt og hrjúft orðalag hennar er oftast notað sem tilefni slíks vanmats og jafnvel fjandskapar í hennar garð.

En fólk sem er stórt í sniðum rekst einnig oft á aðra og stígur á tær sem telja sig æðri og merkilegri en tærnar á nýliðanum sem spyr óþægilegra spurninga. Þetta hefur að mörgu leyti verið einkennandi fyrir sögu Sólveigar Önnu frá því hún braust til forystu í verkalýðshreyfingunni, sem þá var orðin lúin og lin.

Jafnaðarfólk og femínistar ættu að fagna Sólveigi Önnu

Allt jafnaðarfólk og allir femínistar ættu að fagna tilkomu Sólveigar Önnu í baráttuna á vettvangi þjóðmálanna. Allir aðrir verkalýðsleiðtogar sömuleiðis. Svona öflugur einstaklingur hefur ekki komið fram á þessum vettvangi lengi.

Þó Sólveig Anna eigi sér marga stuðningsmenn og konur er stundum eins og femínistarnir hafi mestan áhuga á háskólamenntuðu fólki. Í öllu falli finnst mér ekki algengt að femínistar taki undir með Sólveigu Önnu þegar hún er að tala máli verkakvenna, innlendra sem innfluttra. Það eru vissulega þær konur sem verst standa, bæði efnahagslega og samfélagslega og sem verða oft fyrir niðrandi umgengni og ættu að hafa öflugan stuðning jafnaðarfólks og baráttufólks fyrir kvenréttindum.

En uppá þetta hefur nokkuð vantað. Verkalýðsleiðtogar sem voru fyrir á fleti hafa oft mætti Sólveigu Önnu með fyrirvara og afbrýði þeirra sem hugsa öðru fremur um að verja sín hreiður og landamerki og hafa engan hug á að hleypa nýliðum sem vilja breyta starfsháttum of langt. Þannig hefur Sólveig Anna stundum rekist á veggi innan hreyfingarinnar. Ekki hefur alltaf þótt sjálfsagt að leita samráðs við hana þó hún fari fyrir næststærsta félaginu innan ASÍ - og langstærsta félagi verkafólks á landinu. Og nú þykir mörgum forystumönnum innan hreyfingarinnar sjálfsagt að hún og umbjóðendur hennar í Eflingu sporðrenni óbreyttum kjarasamningi sem aðrir hafa gert - rétt eins og hún og hennar fólk séu réttlausir óvitar sem ekki sé treystandi fyrir eigin samningsrétti.

Þetta hefur eðlilega leitt til árekstra - sem svo hafa í kjölfarið verið nefndir sem tilefni til fordæmingar og útskúfunar. Gagnrýnið umbreytingafólk reynir auðvitað á þolrif þeirra sem fyrir eru á fleti. Það má skilja. En það þarf líka stórhug og víðsýni til að taka við fulltrúum nýrrar kynslóðar og nýrra sjónarmiða.

Nú er Sólveig Anna ekki eini nýliðinn í verkalýshreyfingunni á síðustu árum. Ragnar Þór Ingólfsson kom inn í forystuna á svipuðum tíma. Hann hefur reyndar mátt þola mótvind og stundum óvægin viðbrögð, eins og Vilhjálmur Birgisson upplifði einnig áður þegar hann var utangarðsmaður í hreyfingunni. En meðferðin á Sólveigu Önnu er í sérflokki. Hún hefur ekki notið sömu virðingar og aðrir forystumenn samningsaðila atvinnurekenda í verkalýðshreyfingunni.

Eðlilegt er að spyrja hvort þetta sé vegna þess að hún er sterk kona sem er óhrædd við andstæðingana?

Ófrægingarherferð samtaka atvinnurekenda (SA)

Hvernig Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda (SA), leyfir sér að tala um hana sem óalandi og óferjandi er einstakt og raunar kennslubókardæmi um lítilsvirðingu - ef ekki beinlínis kvenfyrirlitningu. Þessi maður sem á lögum samkvæmt að virða sjálfstæðan samningsrétt Eflingar og forystu þess félags talar þessa dagana eins og Sólveigu Önnu gangi illt eitt til í baráttunni fyrir betri kjörum lægst launaða verkafólksins í landinu, sem jafnframt býr við langhæsta húsnæðiskostnaðinn. Konur eru áberandi í þeim hópi. Hann hefur manna lengst gengið fram í því að lítilsvirða sjálfstæðan samningsrétt Eflingar og berst nú beinlínis fyrir því að afnema hann að fullu - sem og verkfallsréttinn.

Þannig er eins og frítt skotleyfi hafi verið gefið út á Sólveigu Önnu. Stjórnmálamenn sem ættu að styðja hana í nafni jafnaðar- og kvenfrelsisstefnu láta eins og hún sé ýmist ekki til eða að félagsskapur hennar sé þeim ekki sæmandi. Með því er þetta fólk að vanvirða þá verst settu, sem eru umbjóðendur Sólveigar Önnu - ekki síst láglaunakonur. Manni finnst stundum að meint jafnaðarstefna í stjórnmálunum og í háskólaumhverfinu sé meira hugsuð fyrir fínni huta þjóðarinnar og ekki að sama skapi í þágu þeirra sem mest þurfa á sjónarmiðum og stuðningi jafnaðarfólks og femínista að halda. Láglaunakonurnar á hótelunum og leikskólunum og í mörgum hinum verst launuðu störfunum.

Halldór Benjamín, talsmaður atvinnurekenda, nýtir sér ofangreinda neikvæðni gagnvart Sólveigu Önnu í samningaferlinu og magnar andstöðuna gegn henni með klassískri neikvæðri stimplun. Og svo býður hann að auki upp á tvískinnung og óheilindi í samningaferlinu.

Þannig hefur Halldór Benjamín sagt að atvinnurekendur sé reiðubúnir til að útfæra launatöflu sem tekur mið af séraðstæðum Eflingarfólks, en hefur hann ekki enn fengist til að ræða það mál við samningsborðið, þrátt fyrir að Efling hafi sérstaklega opnað á það í síðasta tilboði sínu. Kannski talsmenn atvinnurekenda telji að þeir geti náð bestum árangri með því að ýta undir ófrægingarherferð gegn Sólveigu Önnu - og þannig beygt félagsmenn Eflingar í duftið. Kannski er markmiðið að niðurlægja hana og þar með slökkva þann kyndil innan verkalýðshreyfingarinnar sem er líklegastur til að koma óþægilega við fyrirtækjaeigendur.

Síðan hefur sáttasemjari nú gengið fram fyrir skjöldu og lagt tilboð atvinnurekenda fram sem eins konar „miðlunartillögu“. Hér áður fyrr voru miðlunartillögur oftast einhver millivegur. Sáttasemjari hefur þannig lagst á sveig með atvinnurekendum og vegið að sjálfstæðum samningsrétti Eflingar. Hann hirti heldur ekki um að hafa samráð við Eflingu, eins og honum þó bar að gera.

Erindi Sólveigar Önnu

Þeir sem skilja erindi og aðferðir Sólveigar Önnu vita að hún er góður fulltrúi félagsmanna Eflingar og talar þeirra máli af krafti. Fagurfræði málfarsins ætti að vera aukaatriði en ekki aðalatriði. Má hún ekki bara tala eins og sjómaður og taka svolítið hressilega á forréttindastéttunum, þeim sem tregast við að skapa aðstæður í þessu ríka landi okkar sem gera verst stadda verkafólkinu kleift að ná endum saman?

Það er jú markmiðið með baráttu Sólveigar Önnu og félagsfólks Eflingar. Ég skora á alla vel meinandi jafnaðarmenn og konur í landinu að ljá brýnustu verkefnum jafnaðarbaráttunnar lið - baráttunni um betri kjör fyrir þá verst settu á vinnumarkaðinum. Í framhaldinu þarf að gera samsvarandi átak í þágu þess hluta öryrkja og eftirlaunafólks sem alltof lítið bera úr býtum, í þeim anda sem Efling stendur nú fyrir.

Alvöru kjarabætur fyrir þá verst settu koma ekki af sjálfu sér. Að hafa fengið jafn öflugan leiðtoga í þá baráttu og Sólveigu Önnu var hvalreki fyrir lægri stéttir samfélagsins. Er ekki sjálfsagt að allt vel meinandi jafnaðarfólk ljái þessu verkefni stuðning?

Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×