Lægð gekk yfir landið í gær og tók veður að versna þegar leið á daginn en síðdegis var vegum víða lokað. Nóg var að gera hjá björgunarsveitum um tíma í gær.
„Það var í raun og veru bara fljótlega eftir að veðrið fór að ganga inn á landið að það fór að bera á að það þyrfti að aðstoð björgunarsveita að halda. Þegar upp var staðið undir miðnætti í gær þá hafði þetta náð nánast yfir allt landið utan Vestfjarða og Austfjarða. Þetta voru á annað hundrað manns sem komu að þessu. Á milli fjörutíu og fimmtíu verkefni,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Jón Þór segir flest verkefnin hafa verið svipuð.
„Þetta var svona að mestu leyti að aðstoða fólk sem að hafði fest bíla sína. Fólk sem að hafði þá kannski verið fyrir innan lokanir þegar að þær voru gerðar sem að sýndi sig þegar upp var staðið að gerðu talsvert gagn. Því að ella hefði þurft að aðstoða talsvert fleiri.“

Þá hafi í sumum tilfellum fastir bílar lokað vegum.
„Eitt af þeim verkefnum sem að var sinnt í gærkvöldi það var fólk sem hafði fest bílinn sinn á miðri brúnni yfir Jökulsá úr Jökulsárlóni. Það var kannski svolítið bagalegt því að þar stoppaði þá eða lokaðist allur vegurinn.“
