Sport

Hættu við að flytja heimsleikana í CrossFit á hættulega staðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
CrossFit heimsleikarnir fara áfram fram í Madison í Wisconsin í ár.
CrossFit heimsleikarnir fara áfram fram í Madison í Wisconsin í ár. Instagram

Heimsleikarnir í CrossFit eru ekki á leiðinni til Alabama fylkis á næstunni því CrossFit samtökin hafa tilkynnt það að keppnin muni áfram fara fram í Madison í Wisconsin fylki.

Madison borg mun að minnsta kosti halda næstu tvo heimsleika en heimsleikarnir á síðasta ári heppnuðust mjög vel sem átti kannski þátt í U-beygju CrossFit samtakanna.

Fyrr í vetur komu fréttir af því að frá og með árinu 2024 áttu heimsleikarnir að vera haldnir í borginni í Birmingham í Alabama fylki en það var vitað að CrossFit samtökin væru að leita að nýjum framtíðarstað fyrir heimsleikanna.

Þetta átti þvi að vera þriðji heimavöllur heimsleikanna í sögunni en til að byrja með voru leikarnir haldnir í Carson í Kaliforníu fylki. Þeir fluttu síðan til Madison árið 2017 og hafa farið fram þar fyrir utan kórónuveiruárið 2020.

Það voru vissulega strax áhyggjuraddir þegar fréttist af breytingunum.

Alabama er eitt af suðurríkjunum og það er ljóst að hitinn gæti spilað enn stærra hlutverk á leikunum þar þó að það sé oft nógu heitt í Wisconsin fylki um mánaðamótin júlí-ágúst. Það er meðaltali fimm gráðu heitara þarna í Birmingham en í Madison og um leið hærra rakastig.

Madison hefur líka unnið hug og hjörtu flestra sem þangað hafa komið enda mjög hugguleg borg í norður Bandaríkjunum.

Birmingham borg er líka einn sá hættulegasti í Bandaríkjunum ef marka má tölfræðilegar upplýsingum um fjölda glæpa og morða.

Þeir sem höfðu áhyggjur geta andað léttar og farið að hlakka til heimsleikanna í Madison 2023 og 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×