Fótbolti

Greiðir 370 milljónir króna vegna miða á fótboltaleik

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo lætur ljós sitt skína með nýja liðinu sínu í dag.
Cristiano Ronaldo lætur ljós sitt skína með nýja liðinu sínu í dag. Getty/Yasser Bakhsh

Sádi-arabíski fasteignamógúllinn Mushref Al-Ghamdi hefur greitt andvirði 370 milljóna íslenskra króna fyrir miða á fótboltaleik í kvöld. Miðanum fylgja nefnilega ýmis konar fríðindi.

Al-Ghamdi vann miðann á uppboði en um er að ræða leik þar sem að tveir af merkustu knattspyrnumönnum allra tíma, Lionel Messi og Cristiano Ronaldo, mætast. 

Þetta er vináttuleikur á milli franska liðsins PSG og „stjörnuliðs“ úr sádi-arabísku liðunum Al Hilal og Al Nassr en Ronaldo gekk í raðir síðarnefnda liðsins í lok síðasta árs.

Leikurinn fer fram í Riyadh í dag en Al-Ghamdi fær ekki bara heiðurssæti á leiknum sjálfum heldur fær hann, samkvæmt CNN, einnig að vera viðstaddur galahádegisverð og heimsækja búningsklefa beggja liða, auk þess að taka þátt í að krýna sigurvegara leiksins og fá að vera með á liðsmynd sigurliðsins.

Búist er við því að Messi, Neymar og Kylian Mbappé verði allir með PSG í leiknum. Franska liðið hefur sterka tengingu til Persaflóans en það hefur verið í eigu Qatar Sports Investements síðan árið 2011. Þá skrifaði Messi undir samning við Sáda í maí á síðasta ári um að hjálpa þeim að auka hróður sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×