„Við hefðum sjálfsagt mátt hafa meira samráð við þá áður en það var ýmislegt sem kom til. Veikindi hjá okkur og annir. Svo er það stundum þannig að Framkvæmdasýslan, sem sér um að finna húsnæði handa okkur, hún finnur húsnæðið og við erum að hlaupa og með fullt af fólki sem þarf að koma undir þak. Þá gefst ekki alltaf tækifæri til að vera með nógu góðan fyrirvara,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar í samtali við fréttastofu.
Hún segir að í framhaldinu verði starfsfólk Vinnumálastofnunar í góðu sambandi við starfsmenn Grindavíkurbæjar.
„Ég býst við að þau hittist í næstu viku og fari yfir það sem betur má fara í upplýsingaflæði og fleira. Það er allt á réttri leið, enda samtalið alltaf til alls víst.“
Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Framkvæmdasýslu ríkisins, segir þá í samtali við fréttastofu að enga myglu sé lengur að finna í Festi. Þar hafi mygla fundist í einu herbergi síðasta vor og síðan hafi úr því verið bætt. Áður en flóttamönnunum hafi verið komið þar fyrir hafi verið gerð úttekt á húsnæðinu sem hafi komið vel út.