Menning

Opna safn á heimili Gísla á Upp­sölum í Sel­ár­dal

Atli Ísleifsson skrifar
Bær Gísla stendur innarlega í Selárdal.
Bær Gísla stendur innarlega í Selárdal. Aðsend

Fyrirhugað er að opna safn á heimili Gísla á Uppsölum í Selárdal á Vestfjörðum árið 2025.

Í tilkynningu kemur fram að fiskeldisfélagið Arnarlax hafi ákveðið að styrkja Félag um safn Gísla á Uppsölum um níu milljónir króna til að ráðast í uppbyggingu á safninu.

Fram kemur að styrkurinn verði nýttur meðal annars í vegabætur til að auka aðgengi ferðafólks, en vegurinn að eyðibýlinu Uppsölum hefur ekki verið fær fólksbílum. Þessar framkvæmdir séu þegar hafnar og þá verði sömuleiðis rafmagn lagt í húsið. 

Úr vinnuferð félagsmanna Félags um safn Gísla á Uppsölum síðasta sumar. Aðsend

„Auk þess þarf að ráðast í ýmsar nauðsynlegar viðgerðir á húsinu sjálfu en áhersla verður á að innrétta húsið með upprunalegum hætti, svo að gestir fái að kynnast búsetuháttum Gísla eins og þeir voru á sínum tíma.

Drenað í Selárdal.Aðsend

Þjóðþekktur einsetumaður

Gísli Oktavíus Gíslason, betur þekktur sem Gísli á Uppsölum, varð þjóðþekktur árið 1981 þegar Ómar Ragnarsson sótti hann heim í Stikluþætti. Hann var einsetumaður og þóttu búskaparhættir hans fornir en í húsi hans var hvorki rafmagn né rennandi vatn. Þátturinn, sem vakti misjöfn viðbrögð landsmanna, er líklega einn þekktasti sjónvarpsþáttur í sögu Ríkissjónvarpsins. Gísli fæddist árið 1907 og bjó á Uppsölum alla tíð, en hann lést árið 1986.

Auk fyrrnefndra framkvæmda hyggst félagið um safn Gísla á Uppsölum nýta styrkinn til að grafa fyrir rotþró og koma salerni fyrir í húsinu, drena í kringum húsið til að varðveita veggi, hreinsa skemmda hluti, endurbyggja stiga, gólf, hurðir og veggi, endurgera grænmetisgarð Gísla og fjárhús, útbúa bílastæði, byggja útsýnispall og merkja gönguleiðir í Selárdalnum,“ segir í tilkynningunni.

Kári Schram hjá Félagi um safn Gísla á Uppsölum og Jónas Heiðar Birgisson, fjármálastjóri Arnarlax.Aðsend

Auki áhuga fólks á svæðinu

Haft er eftir Kára Schram hjá Félagi um safn Gísla á Uppsölum, að þau sjái fyrir sér að safnið á Uppsölum muni auka enn frekar áhuga fólks á svæðinu. „Það hefur verið vinsælt hjá ferðafólki að leggja leið sína að Uppsölum en slæmt aðgengi hefur staðið því fyrir þrifum auk þess sem húsið sjálft hefur ekki verið opið almenningi. Vonir okkar standa til að opna safnið árið 2025 og efumst við ekki um að það verði vel sótt enda er fólk forvitið að vita meira um þennan einstaka mann.“

Sömuleiðis er haft eftir Jónasi Heiðari Birgissyni, fjármálastjóra Arnarlax, að Gísli sé löngu orðinn að goðsögn hér á landi. „Flestir Íslendingar hafa séð viðtal Ómars Ragnarssonar við hann, hvort sem það var þegar þátturinn var fyrst sýndur 1981, seinna meir á vídeóspólum eða DVD diskum, eða á Youtube á síðustu árum. Okkur þykir, sem einum stærsta atvinnurekandanum á þessu svæði, það vera lofsvert framtak að varðveita Uppsali og þau vestfirsku menningarverðmæti sem felast í að halda arfleifð Gísla á lífi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×